Grænt te getur skaðað lifrina

Grænt te kemur í ýmsum útgáfum.
Grænt te kemur í ýmsum útgáfum. Samsett mynd

„Það er sérstaklega grænt te í formi taflna og hylkja sem getur leitt til lifraskemmda,“ segir Magnús Jóhannsson, læknir og prófessor í lyfja- og eiturefnafræði, um tengslin á milli græns te og ýmissa lifrasjúkdóma. „Ef að grænt te er drukkið sem venjulegt te í hófi hefur það þó að öllum líkindum engin áhrif á lifrina. Það er aðallega töflurnar og duftið sem þarf að vara sig á.“

Notuð í megrunarskyni

Hægt er að nálgast grænt te í formi taflna og dufts í mörgum fæðubótarefnum hér á landi. Efnin eru meðal annars notuð í megrunarskyni en grænt te hefur lengi verið þekkt fyrir að hafa vatnslosandi áhrif. „Fólk er alltaf að leita af einhverjum skyndilausnum til þess að léttast og lítur svo á að græna teið sé kjörið til þess,“ segir Magnús en þó er ekki vitað hvað það er í grænu tei sem veldur lifraskemmdum.  „Það eru þrjú eða fjögur efni sem liggja undir grun en það er ekki nákvæmlega vitað hvað það er.“

Helstu einkenni lifrabólgna og lifraskemmda er aukin þreyta og slappleiki og í sumum tilvikum fær fólk gulu. 

Gula og kláði algeng einkenni

Árið 2010 skrifaði Magnús ásamt meltingarlæknunum Sif Ormarsdóttur og Sigurði Ólafssyni, grein í Læknablaðið um tengsl á milli lifraskaða og notkunar á vörum frá fæðubótaframleiðandanum Herbalife sem innihéldu meðal annars grænt te.

Í greininni er sagt frá fimm tilfellum þar sem fólk veiktist af eitrunarlifrabólgu. Tilfellin áttu sér stað á árunum 1999 til 2008.  Fólkið kom inn á sjúkrahús með ýmist ógleði, slappleika, gulu, kláða og kviðverki. Öll áttu þau það sameiginlegt að hafa notað Herbalife vörur í einhverja mánuði áður en þau veiktust. Hjá öllum sjúklingunum hurfu einkennin er notkun Herbalife var hætt.

„Útdráttur úr grænu tei, (e. extract) þá bæði í töflu og duft formi kemur við sögu í sumum af þeim vörum sem framleiddar eru af Herbalife. Ég veit ekki betur en að þetta sé enn í sölu og það er ekkert eftirlit með þessu. Ég óttast að aukaverkanir af fæðubótaefnum séu illa tilkynntar og það er náttúrulega ekki nógu gott.“

Skorpulifur sjaldgæf

Að sögn Magnúsar er mjög ólíklegt að grænt te í dufti og töflum geti leitt til skorpulifrar. „Við erum bara að sjá þetta í lifraskemmdum og lifrabólgum. Það er ekki nema að lifraskemmdir myndu fá að vera óáreittar í marga áratugi sem það gæti gerst. Skorpulifur er mjög sjaldgæf hér á landi og það er frekar ofnotkun áfengis sem veldur henni.“

Hér má nálgast greinina úr Læknablaðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert