Ríkissaksóknari hefur áfrýjað dómi í Aurum-málinu svonefnda til Hæstaréttar. Þess verður krafist að dómurinn verði ómerktur og sendur aftur heim í hérað til löglegrar meðferðar. Telur ríkissaksóknari að einn þriggja dómara í héraðsdómi hafi verið vanhæfur vegna ættartengsla sinna. Þetta kom fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.
Athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson, Lárus Welding, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson voru sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur í Aurum-málinu en sérstakur saksóknari fór fram á sex ára fangelsi yfir Lárusi og fjögurra ára fangelsi yfir þeim Jóni Ásgeiri, Magnúsi Arnari og Bjarna. Magnús Arnar gegndi starfi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Glitnis og Bjarni var viðskiptastjóri sama banka.
Ákæra sérstaks saksóknara snýst um félagið Aurum Holdings Limited sem áður hét Goldsmiths, Mappin & Wepp og WOS. Í málinu voru ákærðir þeir Lárus, Jón Ásgeir, sem var einn aðaleigandi bankans, Magnús Arnar og Bjarni fyrir umboðssvik eða hlutdeild í umboðssvikum vegna sex milljarða króna lánveitingar Glitnis banka til félagsins FS38 í júlí 2008. Lánið var veitt til að fjármagna að fullu kaup FS38 ehf. á 25,7% hlut Fons hf. í Aurum Holdings Limited.
Eftir að dómurinn var kveðinn upp var upplýst um að Sverrir Ólafsson, einn dómara í málinu, er bróðir Ólafs Ólafssonar, sem jafnan er kenndur við Samskip. Ólafur hlaut dóm í Al-Thani-málinu svonefnda sem sérstakur saksóknari sótti.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði í kjölfarið að hann hefði gert athugasemdir hefði hann vitað að Sverrir, sem var sérfróður meðdómsmaður, væri bróðir athafnamannsins Ólafs.
Ríkissaksóknari hefur ákveðið að áfrýja málinu til Hæstaréttar og samkvæmt heimildum Ríkisútvarpsins mun hann bera fyrir sig þá málsástæðu að Sverrir hafi verið vanhæfur til starfans vegna ættartengsla. Vegna þessa eigi að ómerkja dóminn og vísa honum aftur heim í hérað til löglegrar meðferðar og þá með öðrum sérfróðum meðdómara. Til vara mun ríkissaksóknari krefjast þess að allir sakborningar verði sakfelldir.