Mannfjöldinn skoðaður rafrænt

8.158 einstaklingar voru á stofnunum eða heimilislausir á Íslandi í …
8.158 einstaklingar voru á stofnunum eða heimilislausir á Íslandi í árslok 2011 mbl.is/Golli

Mannfjöldinn á Íslandi 31. desember 2011 var 315.556 manns, sem skiptust í 118.617 einkaheimili, en auk þess voru 8.158 einstaklingar á stofnunum eða heimilislausir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í fyrsta rafræna manntalinu á Íslandi.

Samkvæmt manntalinu eru 4.019 færri einstaklingar búsettir á Íslandi en áður hefur fram komið í mannfjöldatölum Hagstofunnar sem byggðar eru á skráningu í lögheimili. Muninn má aðallega rekja til ólíkra skilgreininga.

Mannfjöldinn skiptist ennfremur í 81.380 fjölskyldur auk 60.454 karla og kvenna sem stóðu utan við fjölskyldukjarna. Alls voru taldar 117.939 hefðbundnar íbúðir sem voru í notkun, en auk þess 8.273 slíkar íbúðir sem ekki voru nýttar til búsetu, sem jafngildir 6,6% af heildarfjölda hefðbundins íbúðarhúsnæðis.

24,4% með háskólapróf

Af 249.841 einstaklingi 15 ára og eldri hafa 60.922 eða 24,4% lokið háskólaprófi sem hæstu menntun, en 86.087 (34,5%) lokið námi á framhaldsskólastigi. Flestir hafa þó aðeins lokið grunnskólamenntun eða minna, eða 102.832 sem eru 41,2%. Alls voru 166.184 við störf, 85.961 karl og 80.223 konur, þar af þrír fjórðu hlutar við þjónustugreinar af ýmsu tagi.

Hinn 31. desember 2011 tók Hagstofa Ísland fyrsta rafræna manntalið á Íslandi. Manntalið er að öllu leyti sambærilegt við manntal sem tekið hefur verið í öllum Evrópulöndum og var gerð þess styrkt af Evrópusambandinu.

Meðalfjöldi í fjölskyldukjörnum alls var 3,13 einstaklingar, þar af voru 3,23 einstaklingar í hjónabandi með og án barna. Meðalstærð fjölskyldna sambúðarfólks var 3,51 á móti 2,55 hjá einstæðum mæðrum og 2,29 hjá einstæðum feðrum. Ef allar barnafjölskyldur með börn undir 25 ára aldri eru taldar saman reyndust þær vera 54.222 með 197.233 einstaklingum. Meðalstærð þeirra var því 3,64 einstaklingar.

Þetta er ein af niðurstöðum manntalsins sem tekið var miðað við 31. desember 2011. Auk hefðbundinna mannfjöldatalna, nær það til greiningar á fjölskyldum, einkaheimilum, stofnanaheimilum, heimilislausum, menntunarstigi, atvinnuþátttöku, húsnæðisfyrirkomulagi og til húsnæðis. Manntalið er merkilegt fyrir þær sakir að það er í fyrsta skipti tekið með rafrænum hætti og er eingöngu byggt á gögnum úr opinberum skrám. Manntalið var gert með styrk frá Evrópusambandinu en sambærileg manntöl voru gerð í allri Evrópu á árinu 2011.

72,2% virk á vinnumarkaði

Af öðrum helstu niðurstöðum má nefna að mannfjöldinn skiptist í 81.380 fjölskyldur og 60.454 einstaklinga utan fjölskyldna. Fjölskyldurnar voru flestar barnafjölskyldur en í 54.222 þeirra var barn innan við 25 ára aldur. Alls voru 22.444 fjölskyldur samsettar eingöngu af hjónum eða sambúðarfólki án barna. Þá voru alls 118.617 einkaheimili samkvæmt niðurstöðum manntalsins. Alls bjuggu 307.398 manns á slíkum heimilum sem gera 2,59 einstaklingar að meðaltali á heimili. Auk þessara bjuggu 7.397 á stofnanaheimilum og 761 var talinn heimilislaus eða í húsnæðishraki.

„Í manntalinu 2011 reyndust 72,2% þeirra sem eru 16 ára eða eldri vera virkir á vinnumarkaði. Lítill munur var á atvinnuþátttöku karla og kvenna. Hlutfall virkra kvenna á vinnumarkaði var 69,1% samanborið við 75,3% hjá körlum. Atvinnuleysi reyndist vera 6,2%. Af þeim sem voru virkir á vinnumarkaði voru 14.793 með erlent ríkisfang eða 8,3%. Atvinnuþátttakan var hæst hjá ríkisborgurum frá ESB löndum eða Asíu og lægst hjá norður-amerískum ríkisborgurum.

Samkvæmt manntalinu 2011 bjuggu 85.045 heimili í íbúð sem a.m.k. einn heimilismanna átti að hluta eða öllu leyti eða 71,7% heimilanna, 31.851 heimili bjuggu í leiguíbúðum og 1.721 með annarskonar umráðarétti.

Þegar hlutfall auðra íbúða af öllu hefðbundnu íbúðarhúsnæði í landinu er skoðað teljast 6,6% allra íbúða ekki vera í notkun,“ segir enn fremur á vef Hagstofu Íslands.

Manntalið á vef Hagstofu Ísalnds geymir ýmislegt fróðlegt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert