„Getum við náð að mennta stóran hóp af fólki í kennarastéttina sem býr að góðri háskólamenntun í stærðfræði?“ spyr Guðbjörg Pálsdóttir, dósent í stærðfræðimenntun við Háskóla Íslands.
Einsog fram hefur komið sýnir ný skýrsla, sem unnin var fyrir Menntamálaráðuneytið, fram á að víða sé menntun stærðfræðikennara ábótavant.
Guðbjörg telur vandann m.a. felast í því að fáir sem mennti sig í stærðfræði leiti í kennarastarfið. „Okkur hefur ekki tekist nógu vel að gera stærðfræðikennarastarfið nógu aðlaðandi.“
Vandamálið með menntun stærðfræðikennara í framhaldskólum - að of fáir hafi hlotið tilskylda menntun - er ekki nýtt af nálinni sama hvort miðað er við ný lög eða eldri, að sögn Guðbjargar.
„Við á Menntavísindasviði teljum að það sé mikilvægt að hlúa vel að menntun og símenntun kennara og að krafan um meistaragráðu fyrir kennaraefni sé jákvætt skref í þá átt. Stærðfræðikennarar þurfa að hafa gott vald á stærðfræði, þekkja hvernig stærðfræðinám á sér stað og vera færir um að skipuleggja fjölbreytta stærðfræðikennslu.“
Barist sé við æ aukið áhugaleysi nemenda.
„Ef menntun kennara er ekki til staðar er hugsunin bakvið námið ekki eins skýr og það leiðir oft til þess að námið verði þurrt í sér eða að námið snúist um að læra aðferðir en ekki ná valdi á hugmyndum,“ segir Guðbjörg. „Meira eins og páfagaukalærdómur eða uppskrift en með minni tilfinning fyrir efninu.“
Vandinn snúist um að fáir taki full þrjú ár í stærðfræði eins og til er ætlast og þarmeð sé úr litlum hópi að moða sem getur farið í kennaranám. „Ef þig langar til að verða stærðfræðikennari leitarðu frekar beint inn á menntavísindasvið.“
„Okkur hefur ekki tekist að hlúa nógu vel að kennurum eða að fá nógu marga til að fá áhuga á starfi stærðfræðikennarans. Reyndar sækja mjög fáir í stærðfræðinám og þeir sem gera það leita gjarnan annað en í kennslu,“ segir Guðbjörg.
Auðveldara sé að manna vel menntaða kennarastétt í hugvísindafögum en í raunvísindafögum. „Maður þarf t.d. helst að hafa meistaragráðu í ensku til að fá starf í framhaldsskóla sem enskukennari.“
Þeir sem mennti sig í stærðfræði leiti gjarnan annað en í kennslu. „Þessi hópur leitar frekar í vinnu með verkfræðingum, tölvunarfræðingum og fleirum.“
„Mér líst vel á þessa skýrslu. Hún er gagnleg, praktísk og leggur fram margar hagnýtar tillögur til að bregðast við ástandinu.“
Sérstaklega séu tveir þættir sem höfði til hennar og Menntavísindasviðs HÍ:
„Tillögurnar sem höfðuðu hvað mest til mín voru að bjóða kennurum sem eru þegar að kenna stærðfræði uppá aukna menntun og stuðning. Það snýr að endurmenntun kennara.
Svo sé ég líka að við gætum brugðist við skortinum á góðu, samræmdu námsefni. Gæðaeftirlit með kennsluefni er einfaldlega ekki til staðar og ítarlegri kennsluleiðbeiningar þyrftu að fylgja með því fyrir kennara.
Kennurum þarf að vera gert auðveldara að ná sér í endurmenntun og betur þarf að huga að námsefni framhaldsskólanna.“
Sjá frétt mbl.is: Illugi: Skýrsluna ber að taka alvarlega
Sjá frétt mbl.is: Úrbætur í stærðfræðikennslu kosti aukið fjármagn