Umferð var hleypt yfir nýju brúna yfir Múlakvísl síðdegis í dag, tæpum þremur árum eftir að gömlu brúnni skolaði burt í hlaupi 9. júlí 2011. Nýja brúin er tilbúin og búast má við að hún verði vígð með formlegum hætti síðar í sumar þegar búið verður að ljúka við að leggja klæðningu á veginn.
Páll Daníel Sigurðsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs Eyktar, segir í samtali við mbl.is að framkvæmdin hafi gengið vel. Öllum framkvæmdum átti að ljúka í september en að sögn Páls verður framkvæmdin mánuði á undan áætlun. „Við hljótum að klára veginn í júlí og þá er þetta afgreitt mál,“ segir hann.
Aðspurður segir Páll að nú sé unnið að því að flytja ána undan bráðabirgðabrúnni og undir nýju brúna yfir Múlakvísl, sem er nú tilbúin.
„Ætli það séu ekki komin 60% af ánni undir nýju brúna. Þannig að á næstu dögum klárum við að færa hana og þegar því lýkur þá er hægt að tengja veginn yfir gamla farveginn. Þannig að í dag er keyrt yfir báðar brýrnar,“ segir hann.
„Þegar búið er að flytja ána og hún fellur í einum farvegi undir þessa nýju brú, þá er hægt að fylla í gamla farveginn þar sem hún fór í gegnum bráðabirgðabrúna,“ segir hann ennfremur.
Verktakar voru þeir fyrstu sem óku yfir brúna í dag og tekur Páll fram að ekki sé búið að vígja nýju brúna með formlegum hætti. Brúin er hins vegar opin fyrir allri umferð. „Þetta er hins vegar vinnusvæði þannig að fólk á að fara varlega,“ segir hann og bætir við að svæðið sé vel merkt sem slíkt.
Fyrri brú á Múlakvísl tók af í skyndilegu jökulhlaupi í fljótinu aðfaranótt 9. júlí 2011. Vegagerðarmenn reistu nýja bráðabirgðabrú, sem enn stendur, á örfáum sólarhringum en það vakti mikla athygli. Nýja brúin er aðeins austar en sú sem fyrir var.