„Viljum hafa okkar hluti í lagi“

„Við viljum hafa okkar hluti í lagi og vinna úr þessu faglega,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, spurður um viðbrögð við óhappi sem varð um sl. helgi er fíkniefnaleitarhundurinn Buster glefsaði í barn. Hann mun gangast undir skapgerðarmat enda hætt við að hann glefsi aftur.

„Þetta er í fyrsta skipti sem hann glefsar en hann hefur áður hlaupið að fólki og gelt á það,“ segir Oddur í samtali við mbl.is.

Lögreglan á Selfossi greindi frá því fyrr í dag að atvikið hefði átt sér stað á tjaldsvæði í Árnessýslu. Buster glefsaði í barn sem kom að honum þar sem hann var bundinn við fellihýsi umsjónarmanns síns sem var þar í útilegu með fjölskyldu sinni. Barnið, sem er sjö ára, hlaut húðrisp­ur á hendi og úr a.m.k. einni þeirra blæddi. 

Getur endurtekið leikinn

Oddur segist ekki hafa nákvæmar upplýsingar um málsatvik en hann segir ljóst að hundurinn eigi að þola það að börn og aðrir séu í kringum hann. „Ef hann hefur glefsað einu sinni þá eru líkur á því að það gerist aftur,“ segir Oddur aðspurður.

Hvað viðbrögð foreldra barnsins varðar, segir Oddur að þau hafi ekki viljað gera mikið úr málinu. Eftir að hafa ráðfært sig við heil­brigðis­starfs­menn mátu þau aðstæður þannig að ekki væri til­efni til að leita með barnið til lækn­is. Oddur bendir á að barnið hafi áður fengið stífkrampasprautu og því hafi ekki reynst þörf á að endurtaka það.

Staðið sig vel við leit að fíkniefnum

Buster er sex ára gamall en hann var fluttur til Íslands frá Englandi 15. júní 2009. Hann hefur verið starfandi hjá embættinu undanfarin fjögur ár við leit að fíkniefnum. „Hann hefur unnið til viðurkenninga fyrir þá vinnu,“ segir Oddur en almenn ánægja hefur verið með störf Busters.

Aðspurður segir Oddur að ríkislögreglustjóri hafi ekki gefið út verklagsreglur hvað varðar atvik sem þetta og því sé það samþykkt um hundahald fyrir sveitarfélög sem ráði för, sem gefi m.a. kost á skapgerðarmati. „Svo er það innanhússverklagið hjá okkur, en við viljum hafa okkar hluti í lagi og vinna úr þessu faglega,“ segir Oddur.

Skapgerðarmat mun taka daga eða vikur

Spurður nánar út í matið segir Oddur að það verði framkvæmt á næstu dögum. Vegna sumarleyfa hafi ríkislögreglustjóri ekki starfsmann lausan í verkefnið og því verður leitað til dýralæknis sem mun sjá um framkvæmdina. „Þetta tekur einhverja daga eða vikur skilst mér,“ segir Oddur.

Buster er enn starfandi fyrir lögregluna á Selfossi en hann mun hins vegar bera körfu eða múl til öryggis. Verði hins vegar niðurstaða skapgerðarmatsins neikvæð segir Oddur ljóst að Buster verði ekki lengur í þjónustu lögreglunnar á Selfossi.

„Þetta er auðvitað hundleiðinlegt en annaðhvort eru hlutirnir í lagi eða ekki,“ segir Oddur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert