Leita skjóls undan vindi í Vatnshelli

Þessi húsbíll þeyttist marga metra út fyrir veginn milli Arnarstapa …
Þessi húsbíll þeyttist marga metra út fyrir veginn milli Arnarstapa og Hellna þegar vindurinn reif í hann í dag. Ljósmynd/Ægir Þór Þórsson

Húsbíll fauk út af þjóðveginum milli Arnarstapa og Hellna á Snæfellsnesi í dag og kastaðist langt út fyrir veginn. Hvassir vindstrengir suður af jöklinum eru hættulegir fyrir aftanívagna. Mikið er þó af ferðamönnum á Snæfellsnesi og hafa sumir leitað skjóls í Vatnshelli, enda stafalogn neðanjarðar.

„Það eru búnar að vera þvílíkar hviður. Það er það sem er mesti skaðvaldurinn að þetta er ekki jafn vindur heldur rosalegar hviður svo það er eiginlega ekkert ferðaveður. Allavega ekki fyrir fólk á húsbílum eða með kerrur og aftanívagna,“ segir Ægir Þór Þórsson, sem er búsettur á Gufuskálum en starfar í Snæfellsjökulsþjóðgarði.

Að sögn Ægis er þokkalegasta veður á Gufuskálum. „Þar er nánast logn, þetta er bara strengurinn sem kemur niður af jöklinum og er staðbundið á þessu svæði, frá Arnarstapa og út að Djúpalónssandi.“

Mikið af erlendum ferðamönnum

Ægir Þór hefur í dag ekið fram á bæði kerru og húsbíl sem farið höfðu út af veginum í rokinu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Ólafsvík slasaðist enginn, en ástæða sé til að vara fólk við ferðum með vagna.

Að sögn Ægis Þórs hefur talsverð umferð verið af ferðafólki í dag. „Það er mikil traffík, eins og er búið að vera síðustu daga. Það er töluverður aukinn fjöldi ferðamanna á svæðinu miðað við sama tíma í fyrra og þeir eru margir búnir að leita skjóls hjá okkur, fara í ferðir til okkar í Vatnshelli í morgun, enda náttúrulega lítið annað hægt að gera. Það er bara þannig brjálað veður.“

Ægir Þór áætlar að um 85% gesta í Vatnshelli séu erlendir ferðamenn og meirihlutinn sem aki gegnum Snæfellsjökulsþjóðgarð yfirhöfuð séu erlendir gestir. „Við aðstoðuðum til dæmis mótorhjólamenn sem voru að ferðast um þjóðgarðinn í morgun. Þau ætluðu að bíða veðrið af sér í hellinum hjá okkur, því það er erfitt fyrir þau að fara um í svona miklum vindi.“

Veðurstofan varar við hvössum vindstrengjum við fjöll, einkum um landið norðvestanvert, í nótt og á morgun. Því sé ekkert ferðaveður fyrir ökumenn með aftanívagna.

Hringstiginn niður í Vatnshelli í Snæfellsjökulsþjóðgarði. Þarna niðri er logn …
Hringstiginn niður í Vatnshelli í Snæfellsjökulsþjóðgarði. Þarna niðri er logn og skjól, þótt hann blási uppi fyrir. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert