Úr Pepsi auglýsingum í plötuútgáfu

Stony
Stony Ljósmynd/Þorsteinn Sindri Baldvinsson

„Það tók fólk svolítinn tíma að átta sig á þessu, og mig raunar líka,“ segir tónlistarmaðurinn Stony, en hann var í einni stærstu auglýsingaherferð Pepsi í ár þar sem hann sprangaði um götur Ríó ásamt nokkrum af þekktustu knattspyrnumönnum veraldar. Hann segir skiljanlegt að það hafi komið mörgum Íslendingum á óvart að dökkhærði strákurinn með sólgleraugun í Ríó væri Akureyringurinn Þorsteinn.

Stony, eða Þorsteinn Sindri Baldvinsson, gaf frá sér lagið „Feel Good“ í dag og stefnir hann á að gefa út heila breiðskífu á næstunni.

Uppgötvaður af Ryan Seacrest

Þorsteinn var uppgötvaður af Pepsi í kjölfar þess að hann bjó til nokkurs konar „cover“ útgáfu af laginu „Can’t Hold Us“ með hinum þekktu Macklemore og Ryan Lewis. Þar notaði hann hljóð frá ýmsum daglegum athöfnum til þess að búa til takt lagsins og fékk myndbandið fjölmörg áhorf á vefsíðunni Youtube.

„Myndbandið komst inn á vefsíðuna Reddit , en þar sá sjónvarpsmaðurinn Ryan Seacrest það og setti á síðuna sína. Einhvern veginn komst þetta frá honum til Pepsi,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn segir nokkra heppni hafa ráðið því að skilaboð frá forsvarsmönnum Pepsi bárust til hans.

„Ég fékk skilaboð á Facebook frá almannatengli hjá Pepsi um að þau vildu fljúga mér til New York til að taka þátt í auglýsingu. Síðan mín hafði verið eitthvað biluð þannig að ég fékk nánast engin skilaboð, en þessi skiluðu sér í gegn og ég tók auðvitað vel í erindið.“

Þorsetinn var víðförull í tengslum við auglýsinguna og hitti ýmsar stórstjörnur úr knattspyrnuheiminum.

„Við fórum fyrst til Brasilíu þar sem mikið var tekið upp. Síðan héldum við til Spánar og þaðan til London, en þar hittum við söngkonuna Janelle Monae sem syngur í auglýsingunni,“ segir Þorsteinn.

Upplifun að hitta fótboltahetjur

Í auglýsingunni með Þorsteini voru m.a. knattspyrnumennirnir Lionel Messi, Robin van Persie, David Luiz, Sergio Aguero og Gylfi Þór Sigurðsson. Hann segir það óneitanlega hafa verið mikla upplifun að hitta knattspyrnumennina og þeir hafi verið mjög vinalegir þó nokkuð hafi vantað upp á enskukunnáttu sumra.

„Þeir voru mjög hressir, en töluðu litla ensku . Sérstaklega Lionel Messi sem nánast kann ekki stakt orð. David Luiz talar hins vegar góða ensku og það var hægt að spjalla mikið við hann. Hann er flottur gaur með töff hár.“

Forðast að skoða athugasemdir

Bæði Pepsi auglýsingin og myndband Þorsteins við Macklemore lagið hafa fengið mikla athygli og áhorf, en því fylgja fjölmargar athugasemdir frá áhorfendum. Flestar eru þær mjög jákvæðar og viðbrögðin góð þó einnig örli á örfáum ókvæðisorðum. Íþróttabloggari á Yahoo sagði m.a. í grein að Þorsteinn væri pirrandi og taldi upp hina ýmsu ókosti sem hann sá við auglýsinguna og frammistöðu hans.

„Ég hafði samband við þennan gaur á Twitter og hann tók bara vel í það, þetta var ekkert alvarlegt. Ég hef annars ekki lesið athugasemdirnar á þetta mikið, enda tek ég margt sem sagt er við mig frekar nærri mér. Þetta er samt yfirleitt nokkuð jákvætt,“ segir Þorsteinn.

Breiðskífa væntanleg á næsta ári

Lagið Feel Good hefur verið lengi í bígerð hjá Stony, en hann hyggur á frekari útgáfu tónlistar.

„Ég bjó lagið sjálft til fyrir um þremur árum síðan, en gerði ekkert við það. Ég fór hins vegar í að taka það upp í síðasta mánuði, setti í masteringu og síðan hefur þetta gerst mjög hratt. Einnig er ég með helling af nýju efni á leiðinni,“ segir Þorsteinn.

Breiðskífa er væntanleg frá Stony á næsta ári og er nóg af efni á borðinu fyrir hana. Hans helstu fyrirmyndir eru hip-hop listamenn á borð við Drake, Childish Gambino, The Weeknd og Chance The Rapper. Hann segir að tónlistin á plötunni verði þó fjölbreytt og verði alls ekki öll í líkingu við nýja lagið.

„Ég myndi segja að Feel Good væri „glaðasta“ lagið sem ég er að gera, en restin er aðeins dýpri. Ég er með allt of mikið efni til að geta ákveðið mig, en þetta verður eitthvað flott.“

Framtíð á sviði lista

Þorsteinn er fæddur í Reykjavík en uppalinn á Akureyri auk þess sem hann var alltaf með annan fótinn hjá móður sinni í Bandaríkjunum. Áhugi hans er skýr þegar kemur að því að taka stefnu fyrir framtíðina.

„Tónlist og leiklist er í fyrsta sæti hjá mér og ég býst við að gera eitthvað tengt því. Ég er á samning hjá Pepsi í ár, en er annars á fullu að búa til nýja tónlist. Það eru góðir tímar framundan,“ segir Þorsteinn.

Frétt Monitor: Loksins komið lag frá Stony

Frétt Monitor: Íslendingur auglýsir Pepsi með Messi

Frétt Monitor: Með yfir 500.000 „views“ á Youtube

Þorsteinn ásamt knattspyrnumanninum Lionel Messi
Þorsteinn ásamt knattspyrnumanninum Lionel Messi Ljósmynd/Þorsteinn Sindri Baldvinsson
Auglýsingar Pepsi með Stony í aðalhlutverki voru sýndar um allan …
Auglýsingar Pepsi með Stony í aðalhlutverki voru sýndar um allan heim. Ljósmynd/Youtube
Brasilíski knattspyrnumaðurinn David Luiz var sleipastur í enskunni, auk þess …
Brasilíski knattspyrnumaðurinn David Luiz var sleipastur í enskunni, auk þess að vera með fallega hárgreiðslu að mati Þorsteins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert