Úrbætur í stærðfræðikennslu kosti aukið fjármagn

Guðríður telur skýrsluna varpa nýju ljósi á hugmyndir um styttingu …
Guðríður telur skýrsluna varpa nýju ljósi á hugmyndir um styttingu námstíma til stúdentsprófs, sem hefur verið til umræðu hjá menntamálaráðherra. mbl.is/Golli

„Það eru alltaf margir þættir sem þarf að huga að þegar við leggjum mat á gæði skólastarfs og hvað veldur ef árangur er ekki viðunandi,“ sagði Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, um nýlega skýrslu sem unnin var fyrir Menntamálaráðuneytið um ástand stærðfræðináms við framhaldsskóla landsins, í samtali við mbl.is.

Einsog fram hefur komið sýnir skýrslan að margt megi betur fara. „Þetta er athyglisverð úttekt og þarna er bent á fjölmörg atriði sem við þurfum að rýna betur í og lagfæra og ekki hvað síst taka umræðu um sem samfélag.“

Hugmyndir af hinu góða

Guðríður tekur vel í úrbótatillögur skýrsluhöfunda en telur að framkvæmd margra þeirra muni kosta hærri fjárframlög til framhaldsskóla landsins.

„Það er auðvitað augljóst að ef það er vilji til þess að bæta innra starf framhaldsskólanna í landinu þarf að setja meira fjármagn inn í framhaldsskólana,“ sagði Guðríður.

„Mér líst t.d. mjög vel á hugmyndir um fagráð í stærðfræði og aukið samráð milli skólastiga og milli skóla, það má klárlega bæta og er af hinu góða.  Það þarf auðvitað að setja meiri fjármuni í námsefnisgerð – það er gömul saga og ný að það kostar fjármuni að vinna gott námsefni og þarf að auka myndarlega styrki vegna námsefnisgerðar, ekki bara í stærðfræði heldur fleiri greinum.

Og svo er augljóst, og er bent á í þessari úttekt, að það þarf að auka stuðning við nemendur og þar blasir við að fjölga námsráðgjöfum og þétta stuðningsnetið inni í framhaldsskólanum.“

Stytting framhaldsskóla bitni á innihaldi

Guðríður telur skýrsluna varpa nýju ljósi á hugmyndir um styttingu námstíma til stúdentsprófs, sem hefur verið til umræðu hjá menntamálaráðherra.

„Slík stytting mun óneitanlega bitna á innihaldinu að öðru óbreyttu.  Mér finnst þessi úttekt ástæða til þess að menn setji slíkar hugmyndir á ís og taki út fleiri kennslugreinar með sambærilegum hætti.  Ef við ætlum að útskrifa vel menntaða nemendur, með góðan og traustan grunn fyrir frekara nám og líf og starf - eigum við að einbeita okkur að því að skoða innihald námsins.“

Tekur tíma að innleiða breytingar

Einsog fram kemur í skýrslunni er menntun kennara víða ábótavant.

„Varðandi menntun kennara erum við að byggja á eldri lögum, þar sem réttilega er bent á í úttektinni að fyrir árið 2011 fengu framhaldsskólakennarar almennt leyfisbréf til kennslu á framhaldsskólastigi en nú er það bundið við kennslugreinar.  Það tekur tíma að innleiða slíkar breytingar og er best gert með því að auðvelda starfandi kennurum að byggja sig upp í þeirri grein sem þeir helst kenna og þannig auka sérþekkingu þeirra,“ sagði Guðríður.

Það sé erfitt í framkvæmd að búa svo um hnútana að kennarar kenni eingöngu sína aðal grunn grein. „Einfaldlega vegna þess einungis stærstu skólarnir geta boðið upp á þetta mikla sérhæfingu.“

Vinna og viðhorf nemenda

Í skýrslunni kemur einnig fram að í sumum tilfellum vefjist vinna nemenda með skóla fyrir námi þeirra.

„Það er rétt að íslensk ungmenni vinnna almennt mikið með skóla og þannig fjármagna námið sjálft að hluta til og ná sér í vasapeninga.  Slíkt á sér góðar hliðar og slæmar, ef vinnan fer að hafa forgang bitnar það vissulega á námi, en samviskusamur nemandi á að geta sinnt hóflegri vinnu með skólanum án þess að hún bitni á námsárangri.  Það er líka nám og heilmikill lærdómur að taka þátt á vinnumarkaði.“

Þá er þess getið að ákveðið agaleysi ríki oft meðal nemenda og ekki sé alltaf næg virðing borin fyrir náminu.

„Ég held að við þurfum að beina sjónum okkar meira að viðhorfi nemenda og almennings í samfélaginu gagnvart námi og skólastarfi, ungt fólk þarf að bera meiri virðingu fyrir kennurum og skólanum almennt.“

Sjá frétt mbl.is: Illugi: Skýrsluna ber að taka alvarlega

Sjá frétt mbl.is: Of fá­menn­ur hóp­ur í stærðfræðinámi

Guðríður Arnardóttir formaður Félags framhaldsskólakennara - Guðríður telur margar úrbótatilögur …
Guðríður Arnardóttir formaður Félags framhaldsskólakennara - Guðríður telur margar úrbótatilögur skýrslunnar vera af hinu góða. Með leyfi viðmælenda
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert