Búast við góðri uppskeru

Kartöflubændur á Suðurlandi eru nú farnir að taka upp fyrstu uppskeru sumarsins. Hlýindin sem voru áberandi í vor og í júní höfðu einstaklega góð áhrif á uppskeruna. Er uppskeran líklega betri í ár heldur en í fyrra, enda var kaldara í upphafi sumars í fyrra heldur en núna. 

„Þetta lítur ósköp vel út,“ segir Birkir Ármannsson, bóndi á Brekku í Þykkvabæ. „Það er alltaf merki um mjög gott tíðarfar ef maður getur tekið upp fyrstu vikuna í júlí. Í fyrra var þetta töluvert seinna á ferðinni, það munar alveg hálfum mánuði á núna og á seinasta ári.“

Að sögn Birkis var það kuldinn sem gerði það að verkum að uppskeran var seinna á ferðinni í fyrra. „Nú er búið að vera hlýtt bæði á daginn og á nóttunni og það hefur vissulega áhrif,“ segir Birkir en hann byrjar í dag að taka upp. „Eins og staðan er núna eigum við von á góðri uppskeru. Það getur nú alltaf eitthvað komið fyrir en eins og staðan er núna þá lítur þetta vel út.“

Einstakt tíðarfar á Suðurlandi

„Ég er akkúrat núna úti í garð að taka upp, þetta lítur bara ljómandi vel út,“ segir Hjalti Egilsson, bóndi á Seljavöllum við Höfn í Hornafirði. Hjalti þakkar það góðu tíðarfari að uppskeran sé svona góð. „Það er búið að vera gott tíðarfar frá því snemma í vor, eiginlega bara einstakt. Það var ágætt í fyrra en nú er það betra.“

Að sögn Hjalta er hann að taka upp á svipuðum tíma og í fyrra. „Við eigum ekki von á neinu nema góðri uppskeru svo framarlega sem haustið verður gott.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert