Geysir enn skráður sem rautt svæði

Geysir í Haukadal er á meðal þeirra svæða sem Umhverfisstofnun skráir sem rautt svæði og hefur í raun verið frá árinu 2010. Rauðlituð svæði eru í verulegri hættu að tapa verndargildi sínu eða hafa tapað því að hluta til.

Umhverfisstofnun gefur árlega út skýrslu um ástand friðlýstra svæða á Íslandi. Á tveggja ára fresti er svo gefinn út svokallaður „rauður listi“ sem byggður er á ástandsskýrslunni.

Svæðin á listanum flokkast annars vegar á rauðan lista, en þar eru þau svæði sem eru undir miklu álagi sem bregðast þarf við strax. Hins vegar eru á appelsínugulum lista þau svæði sem eru undir töluverðu álagi og fylgjast þarf vel með og bregðast við eftir atvikum.

Svæðum á rauða listanum hefur fækkað en fjölgað á appelsínugula listanum. Fjögur svæði hafa verið á rauða listanum frá árinu 2010, það eru Friðland að Fjallabaki, Geysir, Helgustaðanáma og Reykjanesfólkvangur.

Sumarið 2014 er gert ráð fyrir miklum framkvæmdum og verndarráðstöfunum. Vonast er til að þær aðgerðir muni leiða til þess að Helgustaðanáma fari af rauða listanum. Sömuleiðis standa vonir til að sex svæði falli út af appelsínugula listanum eftir framkvæmdir sumarið 2014: Dynjandi, Dyrhólaey, Gullfoss, Teigarhorn, Skútustaðagígar og Surtarbrandsgil.

Margir þættir geta haft neikvæð áhrif á verndargildi friðlýstra svæða. Þó má segja að áhrif mannlegra umsvifa séu hvað mest, en friðlýst svæði eru oft vinsælir áfangastaðir ferðamanna. Árið 1953 komu um 6000 erlendir gestir til landsins. Árið 1983 voru þeir tæplega 78.000 og 2003 komu um 320.000, eða álíka margir og íbúar á landinu. Í fyrra komu svo um 807.000 manns til Íslands. Talið er að fjöldi ferðamanna fari yfir milljón á árinu 2014 eða 2015.

Listi umhverfisstofnunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert