Hringdi og lýsti yfir ábyrgð

Húsið að Aðalstræti 16 í Bolungarvík er mjög illa farið
Húsið að Aðalstræti 16 í Bolungarvík er mjög illa farið Af vef Bæjarins besta

Bæjarstjóri Bolungarvíkur, Elías Jónatansson, segir í samtali við mbl.is að maður hafi hringt á skrifstofu bæjarstjórnar í morgun og lýst sig ábyrgan á skemmdarverkinu á friðuðu húsi í bænum. Húsið stendur við Aðalstræti 16 í Bolungarvík og var að því er virðist skemmt með stærðarinnar vinnuvél, en það er mjög illa farið.

Maðurinn hafi talið sig ábyrgan fyrir skemmdarverkunum en vildi ekki játa að hafa framkvæmt sjálfan verknaðinn. Ekki liggur fyrir hvernig það getur staðist en upplýsingarnar voru áframsendar til lögreglu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vestfjörðum er málið enn í rannsókn.

Húsið skapaði „blint horn“

Spurður hvort hann telji möguleika á því að bærinn lagfæri skemmdirnar á húsinu segir Elías: „Ákveðin forgangsröðun er í gangi um hvert menn vilja setja fjármuni þannig að það er ómögulegt að segja hvernig ákvarðanir verða teknar.“

Þegar húsið var skemmt stóð til að færa það innar á lóðina en á gatnamótunum sem það stendur við skapar staðsetning þess „blint horn“ fyrir akandi umferð, að sögn bæjarstjóra.

Ekki hafði verið tekin ákvörðun um hvort bæjaryfirvöld mundu standa fyrir flutningnum eða setja húsið í hendur einkaaðila, en leyfi hafði fengist frá Minjastofnun til að færa húsið, sem er í eigu Bolungarvíkurkaupstaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka