„Það er að fæðast lausn,“ segir Ingþór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Pennans, sem á og rekur verslunina Griffil sem brann til kaldra kola í eldsvoðanum í Skeifunni á sunnudaginn. „Við höfum verið að vinna í því að finna nýtt húsnæði, það er ekkert frágengið en það er vissulega eitthvað að gerast.“
Griffill hefur í fjölda ára starfrækt einn stærsta skiptibókamarkað landsins og er verslunin því í kapphlaupi við tímann að finna sér aðstöðu fyrir haustið. Stór hluti af lager verslunarinnar brann á sunnudaginn og er því í mörg horn að líta.
„Við erum búnir að vera í sambandi við okkar stærstu birgja og fara yfir stöðuna gagnvart þessum skólavörum,“ segir Ingþór en verslunin var nýbúin að fá stóra sendingu til landsins þegar eldsvoðinn átti sér stað. „Við vorum sem betur fer ekki búin að dæla öllu úr gámunum inn í búðina þannig að það munar um það. Svo erum við búin að gera aukapantanir. Þetta mun allt smella. Ég á enga von á því að það verði skortur á skólavörum í haust.“