Tugir bíla og rútur við jökulinn

Sólheimajökull.
Sólheimajökull. mbl.is/Brynjar Gauti

Almannavarnadeild mæltist til þess fyrr í dag að ferðafólk legði ekki leið sína að sporði Sólheimajökuls, þaðan sem brennisteinsmettað hlaupvatn rennur niður Sólheimasand. Þegar lögreglan gerði sér ferð að jöklinum síðdegis voru hins vegar þrjár rútur þar og 20-30 fólksbílar.

Óvissustig er enn í gildi vegna hættu á því að hlaup í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi geti vaxið með litlum fyrirvara og að vatnið brjóti af sér jökulsporðinn. Þess vegna er ferðamönnum eindregið ráðlagt að halda sig fjarri ánum, sérstaklega upptökum þeirra, þótt svæðinu hafi ekki verið lokað fyrir umferð.

Mikil brennisteinslykt af ánni

Kjartan Kristinsson, lögreglumaður í Vík í Mýrdal, fór að jöklinum um þrjúleytið í dag til að kanna svæðið. Hann segir að margir hafi verið á ferli þrátt fyrir aðvörun almannavarna. „Það er þarna gönguleið fyrir ofan sem er í lagi að ganga á eins og staðan er núna, hún er ekki inni á hættusvæðinu. En það er bílastæði þarna við Sólheimajökul sem er á hættusvæði ef það kemur hlaup og það var lokað fyrir, þannig að það voru engir bílar þar.“

Aðspurður segir Kjartan að fólki sé ekki vísað burt frá svæðinu en reynt sé að höfða til þess að hafa vaðið fyrir neðan sig meðan óvissustig ríki. „Enda er mjög mikil lykt af Jökulsánni, sérstaklega niðri við brú. Það er líka lykt við Múlakvíslina en hún er ekki eins sterk.“

Lyktin af hlaupvatninu stafar af brennisteinsvetni sem berst með því undan jöklinum. Brennisteinsvetni getur brennt slímhúð í augum og öndunarvegi ef styrkur þess eykst. Fyrstu einkenni eru vanalega flökurleiki og sviði í augum.

Í einstaka tilvikum getur mikið magn hættulegra gastegunda við jökulhlaup leitt til yfirliðs vegna súrefnisskorts. Það á sérstaklega við þar sem ár koma undan jöklum, eins og við sporð Sólheimajökuls, og því rétt að hafa varann á.

Jökulsá á Sólheimasandi rennur undan sporði Sólheimajökuls. Hlaupvatn er nú …
Jökulsá á Sólheimasandi rennur undan sporði Sólheimajökuls. Hlaupvatn er nú í ánni og töluverð brennisteinslykt. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert