Allt með kyrrum kjörum við Mýrdalsjökul

Múlakvísl í gærmorgun
Múlakvísl í gærmorgun mbl.is/Jónas Erlendsson

Litlar sem engar breytingar hafa orðið á vatnsmagni í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi í nótt en minniháttar jökulhlaup er í ánum vegna jarðhitavirkni í Mýrdalsjökli.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglan á Hvolsvelli mælast til þess við ferðaþjónustuna og ferðamenn, að þeir fari ekki að jökulsporði Sólheimajökuls á meðan óvissustig er í gildi vegna hættu á að flóð geti vaxið með litlum fyrirvara og að vatnið brjóti af sér jökulsporðinn.

Ferðamönnum er eindregið ráðlagt að halda sig fjarri Jökulsá á Sólheimasandi og Múlakvísl, sérstaklega upptökum ánna, því brennsteinsvetni berst með hlaupvatni í þær. Brennisteinsvetni getur skaðað (brennt) slímhúð í augum og öndunarvegi ef styrkur þess eykst. Brennisteinsvetni veldur lykt sem almennt er kölluð hveralykt eða jöklafýla. Fyrstu einkenni eitrunar eru vanalega flökurleiki og sviði í augum. Ef þessara einkenna verður vart er mikilvægt að koma sér sem fyrst út af því svæði sem mengunin nær til. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert