Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri og útgefandi Pressunnar hefur gefið út tilkynningu vegna dómsins í máli Gunnars Þorsteinssonar gegn fréttamiðlinum. Þar segir Björn Ingi að héraðsdómur hafi fallist á að ákvörðun Pressunnar um að flytja fréttir af málinu hafi byggst á viðurkenndum gildum í heiðarlegri blaðamennsku og fullnægjandi rannsókn.
Í dómi héraðsdóms í dag voru fimm ummæli í fréttum Pressunnar af konum sem sökuðu Gunnar um kynferðisbrot, dæmd dauð og ómerk. Kröfunni um miskabætur fyrir ummælin var hins vegar vísað frá dómi.
Í tilkynningu Björns Inga segir að í nær öllum tilvikum, sem krafist var ómerkingar ummæla, hafi dómurinn talið að Pressan hafi í umfjöllun sinni gætt þess að fara ekki út fyrir mörk tjáningarfrelsisins. Héraðdómur hafi fundið að ummælum í tveimur fréttum af langri röð frétta um málið, sem þáverandi ritstjóri er talinn bera ábyrgð á, og þau dæmd dauð og ómerk. Í báðum tilvikum hafi fréttirnar byggt á ummælum sem voru rétt eftir viðmælendum höfð, að sögn Björns Inga.
Þá fagnar hann fagna niðurstöðu héraðsdóms að vísa miskabótakröfunum frá dómi.
Sjá yfirlýsingu Björns Inga í heild sinni.