„Hefði ekki viljað breyta neinu“

Frá dómsuppsögunni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Frá hægri: Ásta …
Frá dómsuppsögunni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Frá hægri: Ásta Sigríður H. Knútsdóttir, Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir, lögmaður Ástu og Sesselju, og Bjarki H. Diego, lögmaður Steingríms Sævars Ólafssonar. mbl.is/Þórður

Ásta Sigríður H. Knútsdóttir og Sesselja Engilráð Barðdal eru sáttar við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem dæmdi í dag ákveðin ummæli dauð og ómerk í meiðyrðamáli sem Gunnar Þorsteinsson höfðaði. Héraðsdómur vísaði kröfu um bætur hins vegar frá.

Málið höfðaði Gunn­ar á hend­ur Ástu, Sesselju, Steingrími Sævari Ólafssyni, fyrr­ver­andi rit­stjóra Press­unn­ar og út­gáfu­fé­lagi Press­unn­ar vegna frétta­flutn­ings af nokkr­um kon­um sem sökuðu Gunn­ar um kyn­ferðis­brot. Gunn­ar krafðist 15 millj­óna króna í skaðabæt­ur, fimm millj­óna frá hverj­um aðila fyr­ir sig, og af­sök­un­ar­beiðni. Sem fyrr segir var bótakröfunni vísað frá og þau sýknuð af öðrum kröfum.

Ásta segir að tvenn ummæli, sem birtust á vef Pressunnar í nóvember 2010, hafi verið dæmd dauð og ómerk.

Ásta og Sesselja segja að þær muni nú fara yfir dóminn með lögmanni sínum. 

Spurðar nánar út í niðurstöðuna segir Sesselja: „Ég vona það að þessi dómur sé fordæmi fyrir alla þolendur og að þeir fái styrk til þess að stíga fram. Mér finnst það skipta mjög miklu máli; mér finnst það mikill sigur.“

Ásta bendir á, að þrátt fyrir að kröfu Gunnars um miskabætur hafi verið vísað frá dómi þá sitji þær eftir með háan lögfræðikostnað vegna málsins. Sú upphæðin nemi nokkrum milljónum króna. „Eins ég skildi þetta þá situr Gunnar uppi með sinn kostnað og við sitjum uppi með okkar kostnað, og það er auðvitað súrt að það sé hægt að stefna venjulegum konum úti í bæ sem styðja venjulegar konur sem hafa þolað brot,“ segir Ásta og bætir við að þetta hafi verið mikið álag fyrir þær og fjölskyldur þeirra.

„En ég hefði ekki viljað breyta neinu þegar ég lít til baka,“ segir Ásta að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert