„Ég held við séum að slá eitthvað Íslandsmet hérna,“ segir Samúel Guðmundsson, framkvæmdastjóri heildsölu- og rekstrarvörusviðs hjá Rekstrarlandi sem brann til kaldra kola í Skeifunni á sunnudag, en opnar á ný í Mörkinni á morgun. Samúel segir baráttuanda og bjartsýni hafa gripið starfsfólkið, sem hefur lagt nótt við dag svo þetta megi verða.
Rekstrarland hafði verið rúmt ár í Skeifunni þegar stórbruninn varð. Á mánudagsmorgninum þurfti að kalla slökkviliðið út aftur til að slökkva í glæðum í húsnæði Rekstrarlands, þar sem enn var glóð í s.k. eldhreiðrum. Til að kæfa eldinn endanlega þurfti slökkviliðið að rífa innan úr rými fyrirtækisins.
Eyðileggingin sem blasti við á mánudagsmorgni var því algjör og einhverjum hefðu kannski fallist hendur, allavega um stund, en ekki starfsfólki Rekstrarlands. „Við byrjuðum bara strax að leita að húsnæði og pöntuðum innréttingar,“ segir Samúel.
Með íslenska bjartsýni að vopni, og ómetanlegri aðstoð góðs fólks, hafi kraftaverk verið unnið síðustu fjóra sólarhringa. Afraksturinn er sá að ný verslun verður opnuð á morgun kl. 13 aðeins spölkorn frá þeirri sem brann, í Mörkinni 4. Samúel segir miklu hafa skipt að starfsfólkið fékk mikla hvatningu og stuðning frá viðskiptavinum í gegnum Facebook og í samtölum síðustu daga.
Við opnunina verður því blásið til svolítillar uppskeruhátíðar. „Tugir fólks eru búnir að vinna hérna myrkranna á milli til að láta þetta ganga upp, þanni að við ætlum að halda svolítið upp á það,“ segir Samúel og biður fyrir þökkum til allra fyrir veittan stuðning.