Frumvarp sem heimilar sölu áfengis í verslunum verður lagt fram á haustþingi. Leyfi til sölu á áfengi verður samkvæmt frumvarpinu ekki einungis bundið við bjór og léttvín heldur verður öll sala leyfð að ýmsum skilyrðum uppfylltum.
Skilyrðin snúa til dæmis að sölutíma áfengis í verslunum, en ekki verður heimilt að selja áfengi eftir klukkan átta á kvöldin. Þá verður áfengið selt í afmörkuðu rými innan verslana og sá sem afgreiðir þarf að hafa náð tilskildum aldri. Leyfin eru einnig háð samþykki viðkomandi sveitarfélaga. Þá eru einnig gerðar kröfur um frágang áfengisins í versluninni, svosem um lagergeymslu, sem og öryggiskröfur til þess að sporna við þjófnaði og öðru slíku.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, verður fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, en hann segist hafa bæði stuðning úr eigin flokki og öðrum. „Þetta byggist meðal annars á byggðarsjónarmiðum en svo er auðvitað sjálfsagður hlutur að leyfa þetta. Ástæða þess að frumvarpið heimilar sölu á öllu áfengi er sú að ef einungis væri heimiluð sala á léttvíni og bjór skerðist þjónusta við landsbyggðina. Ef þú leyfir allt saman geta minni verslanir á landsbyggðinni selt þetta allt saman og þannig eykst þjónustan. Með þessu eykst rekstrargrundvöllur minni verslana í minni bæjarfélögum og annað slíkt,“ segir Vilhjálmur.
Hann bætir við að minni verslanir, sem ef til vill hafa ekki aðstöðu til þess að selja áfengið í afmörkuðu rými, geti fengið undanþágur frá skilyrðinu með samþykki sveitarfélags. Þá segir Vilhjálmur að einnig muni skapast rými fyrir sérverslanir, til dæmis með vín og osta.
Vilhjálmur er bjartsýnn á að fá stuðning við frumvarpið og segir breytingarnar verða nauðsynlegar fyrir margra hluta sakir. „Þetta er bæði rándýrt fyrir ríkissjóð að halda úti verslunum ÁTVR út um allt land og því er mikil hagræðingaraðgerð að loka þeim og selja húsnæðið. Þá erum við einnig að minnka verslunarrými í landinu, því eins og hefur komið fram er verslunarrými á Íslandi of mikið,“ segir Vilhjálmur.
„Svo er ákveðinn forvarnarþáttur í þessu. Ég hef heyrt það frá bæjarfélögunum að áfengisdrykkja hafi aldrei minnkað jafn mikið og þegar pöbbinn opnaði í bænum. Þá keyptu menn sér einn bjór í staðinn fyrir að kaupa sér kassa þegar þeir fóru í ríkið í næstu bæjarferð,“ segir Vilhjálmur.
Hann ítrekar þó að frumvarpið verði lagt fram í sátt við sem flesta. „Það er engan veginn markmiðið að auka áfengisneyslu. Það verður strangt og margþætt eftirlit. Bæði mun almenningur, til dæmis foreldrar og forvarnarhópar, fylgast grannt með en ekki síst hið opinbera,“ segir Vilhjálmur og nefnir heilbrigðiseftirlitið og lögregluna sem dæmi.
Aðspurður um hvað verði um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins með breytingum frumvarpsins segir hann að ekki sé komin endanleg niðurstaða fyrir ÁTVR. „Í frumvarpinu eins og það er núna mun verslunum verða lokað en það getur verið að það breytist. Áfengið verður tekið út og þetta verður því Tóbaksverslun ríkisins.“
„Það er önnur þversögnin í þessu. ÁTVR sagði eitt sinn að það væri mikilvægt að þeir hefðu heildsöluna á tóbaki en ekki smásöluna, en svo verði þeir að hafa smásöluna á áfengi en ekki heildsöluna. Þetta er alveg þveröfugt. Ég geri ráð fyrir því að ef þetta kemst í gegn myndi ÁTVR í framtíðinni leggjast niður, eða gæti endað sem eftirlitsaðili,“ segir Vilhjálmur.