Samið um sjúkraflutninga

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, hefur staðfest samning á milli Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu (SHS) um sjúkraflutninga á svæðinu. Er samningurinn til níu mánaða og gildir frá 1. júlí sl. 

Samningar um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu runnu út í ársbyrjun 2012 og hefur SHS sinnt þessari þjónustu án samnings síðan. 

„Ég fól þessum aðilum í síðasta mánuði að taka þetta verkefni að sér þetta verkefni, að reyna að landa samningi í þessu máli. Það er ánægjulegt að samningur sé kominn á, og gott að við þurfum ekki lengur að vera með þessa öryggisþjónustu samningslausa í langan tíma,“ segir Kristján Þór í samtali við mbl.is. 

Segir Kristján Þór samninginn vera gerðan á grundvelli þeim fjárheimildum sem hann hafi úr að spila á þessu ári. „Síðan erum við sammála um það að vinna að gerð langtímasamnings um sjúkraflutninga á þessu svæði og það verður það næsta sem við gerum.“

Sjá frétt mbl.is: Pattstaða í sjúkraflutningum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert