Svavar Örn Eysteinsson og fjölskylda keyptu sér íbúð í fjölbýli í Grafarvogi fyrir tveimur árum. Þann 2. apríl síðastliðinn þegar sonur hans kom heim úr skólanum um hádegisbil kom hann að íbúðinni tómri eftir að þjófar höfðu látið greipar sópa. „Þeir tóku sjónvarpið, græjurnar, myndavél. Það var allt heila klabbið tekið,“ segir Svavar, sem hafði umsvifalaust samband við lögreglu.
Svavar var tryggður hjá sama tryggingafyrirtæki og Júlía Hvanndal, sem sagði mbl sögu sína í gær.
Útidyrahurðin hafði ekki verið brotin upp, en íbúðin er á þriðju hæð, og ekki voru önnur sjáanleg ummerki um innbrot. „Ég keypti íbúðina fyrir tveimur árum af fólki sem bjó ekki í íbúðinni heldur leigðu hana út. Þannig að fyrir mínar sakir hélt ég að ég væri að fá alla lykla þegar ég fékk íbúðina afhenta. Svo kom í ljós að þjófurinn hafði komist yfir lykil frá fyrrverandi leigjendum í íbúðinni,“ segir Svavar.
Svavar telur ljóst að um innbrot sé að ræða og það sé staðfest í skýrslu lögreglu sem gefin var út eftir að málið var upplýst. Þar kemur meðal annars fram hver var að verki. Hins vegar voru engin sjáanleg ummerki um innbrot, enda hafði þjófurinn aðgengi að lyklum án vitundar Svavars.
Í skilmálum heimilistryggingar Svavars segir að tryggingin bæti þjófnað í kjölfar innbrots. Hins vegar er það forsenda bótaskyldu að um ótvíræð merki innbrots sé að ræða.
Svavar segir að tryggingafyrirtækið hafi upphaflega miðað við frumskýrslu lögreglu frá 2. apríl, sama dag og innbrotið var. Á þeim tímapunkti hafði málið ekki verið upplýst. Síðar, þegar svo hafði verið, gaf lögreglan út endanlega skýrslu sem telur um 50 blaðsíður. Í henni kemur fram að um innbrot hafi verið að ræða. „Það var ekki fyrr en ég hótaði að fara með lögfræðing í þetta að þeir miðuðu við endanlega skýrslu lögreglunnar. Ákvörðunin stóð þó áfram óbreytt,“ segir Svavar.
Svavar tekur fram að stórum hluta þýfisins endurheimt. „Þá lét ég þá, lögregluna og tryggingafélagið, hafa uppfærðan lista yfir það sem var skemmt og það sem vantaði. Þannig að þeir þurftu ekki að bæta fyrir allt heldur þá hluti sem vantaði eða voru skemmdir. En svo fékk ég aftur neitun við því. Þeir vildu ekki borga mér skemmdir eða það sem eftir var, þrátt fyrir að það hafi verið mjög lítið,“ segir Svavar og bætir við að næstu skref hans verði að kæra málið til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.
Sjá fyrri umfjöllun mbl.is: Augljóst innbrot en engar bætur