Leiðnin að lækka í hlaupvatninu

Jökulsá á Sólheimasandi rennur undan sporði Sólheimajökuls. Hlaupvatn er nú …
Jökulsá á Sólheimasandi rennur undan sporði Sólheimajökuls. Hlaupvatn er nú í ánni og töluverð brennisteinslykt. mbl.is/Brynjar Gauti

Hlaupvatns frá jarðhitasvæðum undir Mýrdalsjökli gætir enn í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi. Há rafleiðni mælist enn í báðum ánum en nýjustu mælingar gefa til kynna að leiðnin sé tekin að lækka, samkvæmt Veðurstofu Íslands.

Einnig mælist nú minna rennsli í ánum en fyrr í vikunni. Uppleystar lofttegundir losna enn úr hlaupvatninu sem fram kemur undan Sólheimajökli og mældist styrkur þeirra nærri hættumörkum við jaðar jökulsins síðla dags 9. júlí.

Varhugasöm vöð vegna mikillar úrkomu

Ferðafólki er ráðlagt að halda sig frá vestanverðum Sólheimajökli þar sem hlaupvatn kemur undan jöklinum. Eitraðar lofttegundir sem þar losna gætu valdið öndunarerfiðleikum og augnsviða. Vakin er athygli á því að sumar lofttegundirnar eru lyktar- og litlausar og greinast því ekki án mælitækja. 

Spáð er mikilli úrkomu svæðinu við Mýrdals- og Eyjafjallajökul og sunnanverðan Vatnajökli aðfaraótt laugardags og fram eftir laugardegi. Búast má við auknu rennsli í ám á þessu svæði og geta vöð yfir ár orðið varhugaverð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert