Brunarústir fjarlægðar í Skeifunni

Stórvirk vinnutæki vinna við niðurrif á húsnæðinu sem áður hýsti verslun Griffils. Rannsókn tæknideildar á upptökum eldsvoðans í Skeifunni 11 fyrir viku er lokið. Hefur hverfastöð lögreglunnar við Grensásveg því tekið við vettvanginum.

Lúðvík Eiðsson, rannsóknarlögreglumaður í rannsókn tæknideildar á upptökum eldsvoðans, sagði fyrir helgi í samtali við Morgunblaðið að vinnuaðstæður rannsakenda hefðu verið allkrefjandi en m.a. var unnið undir lítt stöðugum bitum úr strengjasteypu. „Þetta er bæði erfiður og flókinn vettvangur. Til að finna hugsanleg eldsupptök þurftum við meðal annars að átta okkur á því hvernig eldurinn breiddist um rýmið,“ segir Lúðvík en rannsóknin gekk þó að sögn hans vel fyrir sig. Verður nú næstu daga fylgst með hreinsunarstarfi auk þess sem eftirlit verður haft með rústunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert