Gerður Sturlaugsdóttir lést 12. júlí sl. á hjúkrunarheimilinu Mörk, 86 ára að aldri.
Gerður var umboðsmaður Morgunblaðsins í Kópavogi á sjöunda og áttunda áratugnum og þekktu margir Kópavogsbúar hana sem Mogga-Gerði, enda unnu margir þeirra hjá henni við blaðburð. Auk starfa sinna fyrir Morgunblaðið var Gerður bílstjóri, hún var sérleyfishafi á Vestfjörðum og leigubílstjóri bæði á Ísafirði og í Hafnarfirði. Þá keyrði hún sjúklinga Reykjalundar í um áratug og síðast var hún póstbílstjóri hjá Háskóla Íslands. Gerður var fædd 13. janúar 1928 að Múla í Nauteyrarhreppi, Ísafjarðardjúpi. Hún var tvígift og átti níu börn með fyrri eiginmanni sínum, Daða Steini Kristjánssyni.
Morgunblaðið sendir fjölskyldu Gerðar samúðarkveðjur og þakkar henni vel unnin störf fyrir blaðið.