Óvenju-blár lax hefur sést á svamli í Elliðaánum um helgina og hefur vakið undran viðstaddra að sögn Ólafs E. Jóhannssonar, formanns árnefndar Elliðaánna, í samtali við mbl.is í dag.
„Þetta er mjög óvenjulegt. Við höfum hvorki séð né frétt af svona fiski áður,“ segir Ólafur.
Jóhannes Sturlaugsson, fiskifræðingur, hefur áður komist í kynni við bláleit seiði í ánni en aldrei kynþroska lax með þennan lit. „Almennt eins og við þekkjum fylgir þessi blái blær silfruðum löxum þegar maður sér ofan á þá samanber að „áin er blá af laxi“. En þessi er aldeilis með óvanalegri dreifingu litarefna,“ segir Jóhannes.
„Ég var að veiða í Sjávarfossinum þegar ég sá laxinn. Hann var alltaf að keyra sjálfum sér úr froðunni og inná grynningarnar þannig að ég sá hann gríðarlega vel. Hann var allur himinblár, ekki bara á bakinu,“ segir Guðmundur R. Erlingsson, sem náði ljósmynd af laxinum síðdegis á föstudag, í samtali við mbl.is.
Fiskurinn er líklega um tvö kíló að þyngd samkvæmt mati Ólafs en hefur ekki fengist vigtaður. „Við vildum gjarnan fá að sjá hann, vigta hann og mæla í rannsóknarskyni,“ segir Ólafur og staðfestir að laxinn sé forvitnilegur fyrir laxaáhugamenn við ána.
Laxinn blái sást í tvígang um helgina, á föstudag og laugardag, og í báðum tilfellum við Sjávarfoss. Samkvæmt því er árnefnd Elliðaánna fær best vitað er laxinn enn á svamli í ánni, hann hefur ekki sést í afla enn sem komið er.