Brotist inn á veitingastað

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Í morgun var brotist inn í veitingastaðinn Hafið bláa við Óseyrarbrú. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Selfossi var áfengi og fartölvu stolið.

Ekki er enn vitað hver var að verki en lögreglan fer nú yfir upptökur úr eftirlitsmyndavélum.

Canon 5D Mark III myndavél og tveimur linsum var stolið úr bifreið milli klukkan þrjú og fjögur síðastliðinn föstudag við Gullfoss. Erlendur ferðamaður lagði bifreið sinni á neðra svæðinu en gleymdi að læsa bifreiðinni. Þegar hann kom að bifreiðinni var taska með búnaðinum horfin, segir í dagbók lögreglunnar á Selfossi.

Ekið var á sex ára dreng á reiðhjóli við Bónus í Hveragerði síðastliðinn laugardag þar sem hann hjólaði yfir götu á gangbraut. Drengurinn skrámaðist lítils háttar á læri.

Þriggja ára stúlkubarn slasaðist á hendi við fall úr koju í sumarbústað í Grímsnesi í gær. Fallið var um einn og hálfur metri. 

Í síðustu viku fékk lögregla tilkynningu um utanvegaakstur á svæði á milli Kerlingarfjalla og Seturs. Talið er að bifreiðin sem hlut á að máli sé í eigu þýskrar ferðaskrifstofu. Málið er í rannsókn en ekki hefur tekist að hafa uppi á ökumanni enn sem komið er. 

Þrjú minni háttar fíkniefnamál komu upp í liðinni viku hjá lögreglunni á Selfossi.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur, einn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og 25 fyrir hraðakstur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert