Minjastofnun hyggst leggja fram mat sitt á skemmdarverkin við Aðalstræti 16, Bolungarvík, þar sem friðað hús varð fyrir stórtækum skemmdarverkum fyrir rúmri viku, en húsakönnun hefur aldrei verið framkvæmd á téðu húsi. Þór Hjaltalín, minjavörður á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum, leggur nú leið sína til Bolungarvíkur og ræðst í að kanna málið á morgun.
Minjastofnun mun líklega kæra málið sérstaklega þar sem húsið er friðað vegna aldurs en einsog fram hefur komið hyggjast bæjaryfirvöld Bolungarvíkur, eigendur hússins, leggja fram kæru og leita skaðabóta í málinu. Rannsókn lögreglu er enn í fullum gangi, enda þótt verknaðurinn hafi verið játaður.
Staðhæfingum Valdimars Lúðvíks Gíslasonar, sem játaði skemmdarverkin í samtali við mbl.is á dögunum, og upplýsingum Minjastofnunnar ber ekki fyllilega saman um húsið en samkvæmt rökum Minjastofnunar var það reist 1909 í Aðalvík og síðan flutt til Bolungarvíkur tíu árum síðar. Ekki hafi verið óalgengt að menn flyttu heilu húsin milli sveita. Þannig sé húsið eldra en 100 ára gamalt og undir vernd aldursfriðunnar. Auk þess hafi legið fyrir ósk um að framkvæmd yrði húsakönnun og að Húsafriðunarnefnd legðist gegn því að húsið yrði rifið.
Umrætt hús var upphaflega íbúðarhús og þykir merkilegt fyrir byggingarlag sitt, samkvæmt upplýsingum frá Minjastofnun. Einnig að það hafi verið flutt þessa vegalengd og að sama fjölskyldan hafi búið áfram í því. Húsið sé hluti af sögu Bolungarvíkur og hafi þannig menningarsögulegt gildi í huga margra.
Með nýjum lögum um menningarminjar, nr. 80/2012, sem tóku gildi áramótin 2013, sameinuðust Húsafriðunarnefnd og Fornleifavernd ríkisins í nýja stofnun, Minjastofnun Íslands. Með þeim lögum urðu öll hús hundrað ára eða eldri friðuð.
„Þegar aldursfriðun tekur gildi með þessum lögum 2013 bætast við mjög mörg hús sem eru friðuð á Íslandi. Oft voru ekki til staðar miklar upplýsingar um þessi hús og því var ákveðið könnunarferli í gangi sem fékk ekki að ljúka áður en húsið var skemmt,“ segir Þór í samtali við mbl.is. Áður en téð lög tóku gildi var miðað við ártalið 1850 fyrir aldursfriðun veraldlegra bygginga.
Þór tekst nú á við þá undarlegu stöðu að leggja menningarsögulegt mat á hús sem búið er að skemma, en ekki er með öllu víst hvort áhugi og fjármagn muni vera til staðar í nægilega ríkum mæli til að húsið verði gert upp.
„Svona gömul hús í Bolungarvík hafa týnt tölunni mjög og það gerir húsið sérstaklega varðveisluvert. Svo er hitt, sem menn sjá ekki alltaf, hvað þessi hús geta orðið falleg þegar búið er að gera þau upp.
Ég vona sannarlega að farið verði í að gera upp húsið og laga.“