„Við sáum mörg undrandi andlit“

Ljósmynd/Hilmar Jónsson

„Við byrjuðum að sækja aftur þvott á þriðjudaginn og fengum mörg undrandi andlit þar sem fólk hélt að fyrirtækið væri bara allt farið. Það er kannski ekkert skrýtið miðað við myndirnar af húsinu,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir hjá Fönn ehf. en húsnæði fyrirtækisins varð fyrir miklu tjóni í brunanum í Skeifunni. 

Fyrirtækið þvær nú þvott sinn út um allan bæ, og fær meðal annars að nota aðstöðu samkeppnisaðilanna sinna. 

„Við erum að einbeita okkur að fyrirtækjum. Við höfum ekki alveg rúm til þess að taka við einstaklingsþvotti en sum fyrirtækin hafa sum ekki fundið fyrir neinu. Hjá öðrum hefur þvotturinn aðeins raskast en þau hafa sýnt okkur mikinn skilning. Svo eru kannski einhverjir sem hafa farið annað því þeir vita ekki að við erum enn að störfum.“

Skrifstofurnar í Skeifunni eru í lagi

Starfsemi Fannar er enn stjórnað frá skrifstofum fyrirtækisins í Skeifunni. Skrifstofan okkar er heil. Tölvukerfið og allt það er í lagi þannig að við erum bara að púsla þessu öllu saman. Þetta gengur tímabundið þar til við finnum út því hvað næsta skref verður. Það er ekki hægt að segja til um það ennþá hvar við verðum.“

Aðal viðskiptavinir Fannar þessa stundina eru hótel. Það var unnið alla helgina því túristarnir halda áfram að streyma til landsins og við þurfum að þvo þvottinn frá hótelunum sem við þjónustum, það er stærsti pósturinn okkar. Við unnum frá 8-22 alla helgina,“ segir Hjördís og bætir við að langflestir starfsmenn fyrirtækisins eru í vinnu. „Það hefur eitthvað raskast en langflestir eru í vinnu. Að vísu ekki í skeifunni heldur á öðrum stöðum.“

Hún hvetur einnig þá sem eiga inni þvott hjá fyrirtækinu til þess að hafa samband. „Það var eitthvað af fatnaði sem bjargaðist og við erum að reyna að leysa úr því núna,“ segir Hjördís. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert