Viku eftir brunann í Skeifunni 11 hefur Griffill gert upp við alla birgja sem áttu vörur í versluninni. Tjón Griffils var gríðarlegt, þar sem allt brann sem brunnið gat, en yfirstjórn Pennans, eiganda Griffils, tók þá ákvörðun í beinu framhaldi af eldsvoðanum að bæta öllum birgjum sem áttu vörur í versluninni tjón sitt.
Ingþór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Pennans, segir í fréttatilkynningu að tjónið hafi verið gríðarlegt, enda stóð ekkert eftir. „Við ákváðum hins vegar að það fyrsta sem við myndum gera væri að bæta þeim birgjum sem áttu vörur hjá okkur tjón sitt og hefjast síðan handa við uppbyggingu.“
Síðasta greiðsla til birgja var innt af hendi á föstudaginn, innan við viku eftir brunann.
Unnið er að því hörðum höndum að finna nýtt húsnæði fyrir Griffil, sem mun meðal annars hýsa hinn sívinsæla skiptibókamarkað fyrir námsmenn sem notið hefur mikilla vinsælda síðustu ár og tryggt nemendum hagstætt verð á notuðum skólabókum, auk þess sem hefðbundnar skólavörur verða á boðstólum. Tilkynnt verður um nýtt húsnæði á næstunni.