„Við erum að fá kennslanefnd ríkislögreglustjóra okkur til aðstoðar til að fá fullvissu um að um Ástu sé að ræða,“ segir Elís Kjartansson, lögreglufulltrúi á Selfossi. Hann sér um rannsókn á hvarfi Ástu Stefánsdóttur, 35 ára lögfræðings, sem saknað hefur verið frá 10. júní. Talið er að lík sem fannst fremst í Bleiksárgljúfri í gærkvöldi sé af Ástu.
Kennslanefnd ríkislögreglustjóra er skipuð tveimur rannsóknarlögreglumönnum, réttarlækni og tannlækni. Nefndin ber saman tannmyndir og tannlæknaskýrslur í skoðun sinni, en það er talin vera skjótasta aðferðin við slíka rannsókn. Þá eru einnig tekin DNA-lífsýni til skoðunar.
Að sögn Elísar mun rannsókninni ljúka innan örfárra daga. Þá mun réttarkrufning einnig fara fram á næstu dögum. Þar mun lögregla fá endanlega niðurstöðu um tvennt. Annars vegar hvort um Ástu sé að ræða og hins vegar hver dánarorsökin er.