Menn festist ekki í sínum stólum

Stefán Eiríksson - Tvær umsóknir frá Stefáni eru til skoðunar …
Stefán Eiríksson - Tvær umsóknir frá Stefáni eru til skoðunar hjá borginni. Ómar Óskarsson

„Allt hefur sinn tíma eins og þar stendur og ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að menn eigi ekki að festast í sínum stólum.“ Þessi orð lét Stefán Eiríksson lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins falla á Twitter en hann hefur sótt um tvær stöður hjá hinu opinbera.

„Ég tel að það sé eðlilegt að marka svona lykilstöðum ákveðinn tíma. Maður hefur bæði gott af því sjálfur og ekki síður sú starfsemi sem maður stýrir. Að mínu mati ætti þetta almennt að vera með þessum hætti hjá hinu opinbera,“ segir Stefán aðspurður af mbl.is í dag.

Stöðurnar sem Stefán sækir um eru staða sviðsstjóra vel­ferðarsviðs Reykja­vík­ur­borg­ar annars vegar og staða for­stjóra Sam­göngu­stofu hins vegar en báðar stöður voru auglýstar til umsóknar í júní.

Spurður hvers vegna hann sæki um stöðu hjá velferðarsviði svarar Stefán: „Það er mjög áhugavert starf og krefjandi verkefni. Ég er áhugasamur um að taka að mér krefjandi verkefni.“ 

Stefán telur of snemmt að segja til um hvora stöðuna hann myndi velja ef báðar umsóknir yrðu samþykktar. „Við skulum stíga eitt skref í einu. Maður spilar ekki úrslitaleikinn á HM fyrr en maður er búinn með riðlakeppnina.“

Hann telur sig í báðum tilfellum í hópi hæfra umsækjenda en að alls ekki sé augljóst hver hæfasti maðurinn sé í hverju tilviki fyrir sig.

Stefán hefur bara gott að segja af sínum átta ára starfsferli sem lögreglustjóri. „Þetta hefur verið mjög lifandi og skemmtilegur tími og hérna hef ég unnið með góðu fólki. Það stendur uppúr.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert