Stórbruninn varð vegna sjálfsíkveikju

Eldurinn kom upp í húsnæði Fannar, í stafla af bómullarblönduðu …
Eldurinn kom upp í húsnæði Fannar, í stafla af bómullarblönduðu efni á þvottagrindum sem stóðu við strauvélar. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Rannsókn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á bruna í húsum við Skeifuna 11, Reykjavík, að kvöldi sunnudagsins 6. júlí er nú lokið.

Niðurstaða rannsóknar er að eldur hafi komið upp í húsnæði þar sem Fönn ehf rekur þvottahús og efnalaug, nánar tiltekið í einnar hæðar byggingu á norðurhluta lóðarinnar, í miðbyggingu þar sem verslunin Víðir er með starfsemi í austurhluta og verslunin Griffill í vesturhluta.

Eldsupptök voru í og við þvottagrindur sem stóðu við strauvélar. Sjálfsíkveikja hefur þar orðið vegna hita og oxunar eftir þvott og við þurrkun, í stafla af bómullarblönduðu efni. Að sögn lögreglu var mikill hiti orðinn í rýminu þegar eldurinn kviknaði, og leiddi það til þess að hann barst hratt út.

Að rannsókn hafa unnið sérfræðingar tæknideildar lögreglu auk annarra sérfræðinga sem hún hefur leitað til, t.d. frá Mannvirkjastofnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert