ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur ákveðið að loka rannsókn sinni á Íbúðalánasjóði, þar sem íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að breyta reglum um sjóðinn í samræmi við ábendingar eftirlitsins.
„Eftirlitsstofnunin fagnar því að Ísland hefur gert mikilvægar breytingar á umsvifum Íbúðalánasjóðs til að tryggja að starfsemi hans sé í samræmi við reglur EES-samningsins um ríkisaðstoð,“ er haft eftir Oda Helen Sletnes, forseta ESA, í tilkynningu á heimasíðu stofnunarinnar.
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að þar sé m.a. sagt frá því að í kjölfar breytinganna muni Íbúðalánasjóður ekki fjármagna kaup á húsnæði sem metið er á meira en 40 milljónir íslenskra króna og þá verði leigufyrirtæki að uppfylla ákveðin félagsleg skilyrði til að eiga kost á láni hjá sjóðnum.