Sólin sýnir sig á sunnudag

Íbúar höfuðborgarsvæðisins þurfa að bíða ögn lengur eftir sólinni í …
Íbúar höfuðborgarsvæðisins þurfa að bíða ögn lengur eftir sólinni í sumar. mbl.is/Eggert

„Það eru einhverjar líkur á því að hún geti sýnt sig á sunnudaginn en fram að því verður væta,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur, aðspurður hvenær sólin láti sjá sig á höfuðborgarsvæðinu.

Hann segir að ekki hafi þó mikið rignt að undanförnu í magni talið þó að alltaf hafi verið einhver væta inn á milli. „Það er útlit fyrir rigningu á morgun og einhver væta verður á laugardag en á sunnudag eru spárnar að skána og þá gæti orðið stund milli stríða yfir miðjan daginn,“ segir Einar og bætir við að um 15-18 stiga hiti verði í sólinni.

Útlitið er ágætt fyrir landið allt á sunnudaginn að undanskildu úrkomusvæði austur af landinu sem gæti náð inn á Austurland.

Áfram verður milt veður þrátt fyrir vætu og hlýjast verður norðaustantil þar sem hitinn fer líklega í 20 stig um helgina.

„Þetta verður tiltölulega meinlítið veður þó að það fari bakki norðvestur yfir landið á morgun og undan honum blæs aðeins. Framundan eru þó meinhægir dagar eins og hefur verið að undanförnu hvað vinda varðar,“ segir Einar.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert