Vopnað rán var framið í matvöruversluninni Pétursbúð, sem stendur við Ránargötu í Vesturbæ Reykjavíkur í kvöld. Samkvæmt heimildum mbl.is réðust tveir menn inn í verslunina vopnaðir barefli og sprautunál. Komust þeir undan með eitthvað af peningum.
Þegar blaðmaður náði tali af starfsmanni Pétursbúðar neitaði hann alfarið að ræða um málið. Ekki náðist í lögreglu höfuðborgarsvæðisins og liggur því ekki fyrir hvort ræningjanna sé enn leitað.
Uppfært klukkan 23.22:
Lögregla höfuðborgarsvæðisins sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu vegna málsins: „2150 var tilkynnt um að tveir menn vopnaðir bareflum hefðu rænt söluturn við Ránargötu. Skömmu síðar voru tveir ungir menn handteknir grunaðir um verknaðinn. Þeir eru vistaðir í fangageymslu og er málið í frumrannsókn. Engan sakaði, líkamlega, í söluturninum.“