Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á upptökum eldsvoðans í Skeifunni 11 í Reykjavík, sem varð sunnudagskvöldið 6. júlí sl., er lokið. Niðurstaða hennar er að sjálfsíkveikja hafi orðið vegna hita og oxunar í húsnæði Fannar.
Tveir sérfræðingar frá Mannvirkjastofnun komu einnig að rannsókn málsins. Annar þeirra er Guðmundur Gunnarsson, fagstjóri eldvarna. „Það fara þarna af stað ákveðin efnahvörf og gerjun sem myndar hita. Þegar hitinn kemst svo ekki í burtu magnast hann upp þar til það fer að loga í þessu,“ segir Guðmundur en eldsupptök voru í og við þvottagrindur.
Aðspurður segir hann sjálfsíkveikjur nokkuð algengan tjónvald, bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum. „Ef tekkolía er t.a.m. borin á viðarhúsgögn og tuskurnar síðan teknar og pakkað saman áður en þær enda í ruslafötunni getur það valdið íkveikju.“