Svíkur út veitingar á hverjum degi

Maðurinn svíkur út veitingar á veitingastöðum borgarinnar.
Maðurinn svíkur út veitingar á veitingastöðum borgarinnar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Karlmaður á fimmtugsaldri var handtekinn á veitingastað í miðborginni um klukkan tíu í gærkvöldi eftir að hann neitaði að greiða fyrir veitingar sem hann pantaði og naut. Að sögn lögreglu er um að ræða mann sem hefur verið handtekinn á hverjum degi í hálfan mánuð fyrir þjófnaði og veitingasvik.

Í gærkvöldi fór maðurinn á veitingastað í Aðalstræti í Reykjavík og pantaði sér steik og með henni. Þegar hann hins vegar fékk reikninginn harðneitaði hann að greiða fyrir veitingarnar og þjónustuna. Lögregla segir ekki nóg með að maðurinn svíki út veitingar með þessum hætti heldur sé hann einnig ógnandi í framkomu við starfsfólk veitingastaðanna sem hann svíkur í viðskiptum.

Neitaði að greiða fyrir leigubíl

Það voru þó ekki aðeins veitingar sem menn neituðu að greiða fyrir í gærkvöldi því á tólfta tímanum kom leigubílstjóri með farþega að lögreglustöðinni við Dalveg vegna farþega sem vildi alls ekki greiða fyrir farið.

Þegar lögreglumenn hugðust ræða við farþegann réðst hann á þá og var hann ekki handtekinn fyrr en eftir talsverð átök. En eftir að tókst að yfirbuga manninn og færa í fangaklefa neitaði hann alfarið að gefa upp nafn og er hann því vistaður nafnlaus.

Reynt verður að komast að því með morgninum hver maðurinn er og hann yfirheyrður í framhaldi af því.

Hugðist út af krá með vínflösku

Fleiri virðast hafa átt í mannlegum samskiptum í miðborginni í gær því karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn við Hverfisgötu skömmu eftir miðnætti eftir að hann veittist að dyraverði á öldurhúsi við götuna. Maðurinn mun hafa tekið vínflösku af kránni og ætlað sér að fara út af staðnum með hana. Þegar dyravörður sá það reyndi hann að hindra för mannsins.

Við það upphófust átök og var dyravörðurinn með áverka eftir viðureignina við manninn. Þegar svo lögregla handtók manninn og færði í fangaklefa fundust einnig á honum fíkniefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert