Blái laxinn, sem hefur sést í Elliðaánum undanfarna daga, hefur nú verið veiddur. Þetta staðfestir Ólafur E. Jóhannsson, formaður árnefndar Elliðaánna, í samtali við mbl.is.
„Laxinn veiddist í morgun og við fengum hann hjá veiðimanninum. Nú fer hann til vísindamanns sem hefur annast rannsóknir í Elliðaánum og hann ætlar að reyna að komast að því hvað það er sem veldur bláa litnum,“ segir Ólafur.
Í samtali við mbl.is fyrr í mánuðinum sagði Ólafur að hann hefði aldrei heyrt um bláan lax áður. „Þetta er mjög óvenjulegt. Við höfum hvorki séð né frétt af svona fiski áður.“