Sýslumaðurinn á Húsavík, Svavar Pálsson, féllst á 40 milljóna tryggingu sem krafist var vegna lögbanns gegn gjaldtöku af ferðamönnum við Leirhnjúk og Námaskarð í dag. Þetta staðfestir Svavar í samtali við mbl.is.
Það þýðir að lögbannið sem krafist var af félagsmönnum í Landeigendafélagi Reykjahlíðar fyrr í sumar tekur strax gildi.
Eins og fram hefur komið í fyrri fréttum mbl.is hugðust félagsmenn upphaflega innheimta gjald af ferðamönnum við Leirhnjúk, Námaskarð og Dettifoss. Fallið var frá gjaldtökunni við Dettifoss eftir að samningur náðist við Vatnajökulsþjóðgarð um uppbyggingu við fossinn.
Gjaldtaka hófst hins vegar við hveri austan Námafjalls og við Leirhnjúk 18. júní.
Sautján manns eiga hlut í Landeigendafélagi Reykjahlíðar og voru það sjö þeirra sem fóru fram á lögbannið.