„Bráðabani“ að fara niður að vatninu

Gígurinn Víti er við barm Öskju og voru flóðbylgjurnar eftir …
Gígurinn Víti er við barm Öskju og voru flóðbylgjurnar eftir skriðuna hvað stærstar á grynningunum þar. Ljósmynd/Jara Fatima Brynjólfsdóttir

„Það er alveg klárt mál að þetta hefði farið verr ef þetta hefði verið um miðjan dag,“ segir Ármann Höskuldsson jarðfræðingur, sem staddur er við Öskjuvatn og skráir þar ummerki eftir skriðuna sem féll rétt fyrir miðnætti á mánudag. Hann segir hlíðina enn óstöðuga og óráðlegt að fara niður að vatninu.

„Það er bara bráðabani. Menn verða aðeins að doka við í nokkrar vikur meðan við erum að sjá hvort hlíðin er stöðug eða ekki.“ Vísindaráð almannavarna fundaði um málið í morgun og er niðurstaðan sú að gönguleiðin norðan með Öskjuvatni verði áfram lokuð, en þar voru áhrifin hvað mest.

Meta hvort atburðurinn sé einstakur

„Það sem við vorum aðallega að velta fyrir okkur var hvort þetta sé einstakur atburður eða ekki,“ segir Víðir Reynisson deildarstjóri almannavarna. „Svæðið er óstöðugt og er búið að vera það lengi. Það sem við þurfum að gera er að skoða betur næsta nágrenni kringum þennan stað til að athuga hvort hætta sé á frekari berghlaupum.“

Á morgun verður flogið í þyrlu Landhelgisgæslunnar með vísindamönnum yfir svæðið til að skoða skriðuna í návígi úr lofti og gera mælingar. Unnið verður úr þeim gögnum sem safnast annað kvöld og fundað að nýju á föstudag, þar sem staðan verður endurmetin út frá þeim.

„Í millitíðinni verður gönguleiðin rétt norðan við Víti lokuð. Það eru hópar og ferðafólk að fara þarna að vatninu annars staðar, en við hvetjum fólk til að fara mjög varlega og það er búið að senda upplýsingar á ferðaþjónustufyrirtæki auk þess sem landverðir og björgunarsveitir eru á ferðinni til að upplýsa fólk og setja upp merkingar,“ segir Víðir.

50 metra flóðbylgjur slettust upp um veggi

Gönguleiðin sem fjölmargir fara um á degi hverjum liggur frá bílastæði út að Öskjuvatni og að Víti, sem stendur við jaðar þess. Í Víti er ylur í vatninu og vinsælt að fá sér þar sundsprett en einmitt á því svæði urðu flóðbylgjur eftir skriðuna hvað mestar.

„Þetta er mikil skriða sem fellur út í vatnið og hún skapar flóðbylgju, ekki eina heldur eru það líklega um fjórar sem eru í kringum 50 metrar og slettast upp um veggina. Bylgjan fer um allt vatnið, en magnast á grynningum við Víti og það er akkúrat á því svæði sem túristarnir labba,“ segir Ármann.

Yfirborð Öskjuvatns hækkaði um líklega tvo metra við skriðuna og því ljóst að mikill massi féll út í það. Ármann áætlar að lágmark 50 milljón rúmmetrar af jarðvegi hafi hrunið úr fjallinu og þar af hafi um helmingurinn farið í vatnið.

Fjallið tók jóðsótt og fór

Veðurstofa Íslands sagði í gærkvöldi hugsanlegt að hlýindi og mikil snjóbráð hafi komið skriðunni af stað. Aðspurður segist Ármann telja skýringuna aðra því umfangið sé meira en svo. „Þetta eru engar aurskriður eins og fréttir voru af fyrir norðan, heldur fór fjallshlíðin bara af stað. Fjallið tók jóðsótt og fór niður eftir.“

Hann rekur skriðufallið til hreyfinga í hringsprungum kringum öskjuna, auk þess sem einhver ólga sé í Víti. Hann verður áfram á svæðinu þar til á morgun, en Ármann er ekki einn á ferð.

„Ég er hér með kollegum frá Kaliforníuháskóla í Santa Barbara. Við erum með nemendur frá þeim sem aðstoða okkur við að skrá ummerkin.“ Segja má því að bandarísku stúdentarnir hafi komist í feitt í þessari námsferð, en aðrar eins hræringar er ekki hægt að skipuleggja fyrirfram.

Sjá fyrri fréttir mbl.is:

Vígalegur mökkur steig til himins

Stór skriða féll í Öskjuvatn

Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna.
Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Dr. Ármann Höskuldsson jarðfræðingur skrásetur nú ummerki skriðufallsins við Öskjuvatn.
Dr. Ármann Höskuldsson jarðfræðingur skrásetur nú ummerki skriðufallsins við Öskjuvatn. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka