Sveppatínsla hefur færst í aukana

„Sveppatínsla hefur mikið færst í aukana á síðustu árum. Í gegnum tíðina hefur fólk af erlendu bergi brotið mikið tínt sveppi, sérstaklega Austur-Evrópubúar. Á síðustu árum hafa Íslendingar þó farið að sýna þessu meiri áhuga en áður,“ segir Gústaf Jarl Viðarsson, skógfræðingur í Heiðmörk, en þar er mikið um sveppi.

„Mjög fínir matsveppir vaxa nefnilega á Íslandi, misgóðir eins og þeir eru margir, en úrvalið er mjög gott í íslensku náttúrunni. Eftirsóttasti sveppurinn er að ég held kóngasveppurinn. Það er erfitt að finna hann, þar sem hann vex ekki víða. Þetta er góð útivist og fólk getur tínt sveppi sem væru ekki venjulega til sölu úti í búð. Síðan eru þetta líka fersk og góð hráefni,“ segir Gústaf.

Spurður hvers vegna útlendingar tína sveppi frekar en Íslendingar vísar Gústaf til skógarmenningarinnar. „Í þessum löndum er skógarmenning, sem er ekki á Íslandi, enda fáir skógar hér. Oft er þetta fólk sem hefur alist upp við að nýta sér gæði náttúrunnar í meira mæli en við.“

Sveppatímabilið hófst fyrr í ár en venjulega. „Venjulega er aðal sveppatínslutíminn í ágúst, en hann nær þó alveg frá júlí fram í september. Vöxturinn er mismunandi eftir tíðarfari, en ef það rignir mikið þá hefur það góð áhrif á sveppina.“

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur segir best að fara sér ekki of geyst í sveppatínslu.

„Best er að tína sveppi þegar þeir eru ungir og ferskir. Þegar matsveppum er safnað þarf viðkomandi að vita hvað hann er að gera. Ef einhver óvissa ríkir um hvort borða megi sveppinn, þá er best að borða hann ekki. Betra er að byrja á einhverju einföldu og auðkenndu, eins og til dæmis lerkisveppum og furusveppum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert