„Þetta var svolítið vígalegur mökkur,“ segir Stefán Valur Jónsson, björgunarsveitarmaður í Skagfirðingasveit á Sauðárkróki. Stefán og þrjú önnur úr sveitinni sinna hálendisgæslu norðan Vatnajökuls og eru að því best er vitað þau einu sem urðu vitni að hamförunum í Öskjuvatni um miðnætti í fyrrakvöld, þegar gríðarstór skriða féll í vatnið.
Jara Fatima Brynjólfsdóttir, flugmaður Mýflugs, flaug yfir svæðið í gær og tók meðfylgjandi myndir úr lofti þar sem vegsummerkin sjást berlega.
Lokað var fyrir almenna umferð að Öskju í gær eftir skriðufallið, en vísindaráð almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra fundar nú um málið. Töluvert af ferðamönnum hefur verið á ferli í þjóðgarðinum síðustu daga, enda meiriháttar veður, sól og blíða, að sögn Stefáns. Ekki er hins vegar vitað til þess að neinn hafi verið staddur í Öskju þegar skriðan féll, nálægt miðnætti á þriðjudag.
„Við vorum á keyrslu í svolítilli fjarlægð þegar við sáum mökkinn stíga upp frá þessu. Hann var ekki dökkur, heldur ljós eins og af mikilli gufu. Svo fattaðist náttúrlega ekkert hvað hafði gerst fyrr en í gær þegar landverðir fóru á svæðið og sáu ummerkin,“ segir Stefán.
Við fyrstu sýn áætla vísindamenn að a.m.k. 24 milljónir rúmmetra af jarðvegi hafi fallið ofan í Öskjuvatn, og enn meira féll úr hlíðinni án þess að lenda í vatninu. Við hrunið hækkaði vatnsyfirborðið um a.m.k. tvo metra og varð við það flóðbylgja sem gekk allt að 100-120 metra upp fyrir vatnsborðið.
Ljóst er því að mikið hefur gengið á og ferðamenn hefðu getað verið í umtalsverðri hættu, en Öskjuvatn er vinsæll ferðamannastaður á hálendinu. Vatnið myndaðist í sigdæld sem varð til á nokkrum mánuðum eftir eldgos í Öskju árið 1875.
Vatnið er það næstdýpsta á Íslandi, var raunar lengi vel það dýpsta áður an Jökulsárlón tók við þeim titli. Öskjuvatn er jafnframt yngsta askja á jörðu og að því leyti merkilegt fyrirbæri fyrir jarðvísindin. Fram kemur á bloggi Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings, frá því í apríl 2012, að Öskjuvatn sé í reynd lítil askja inni í stórri öskju.
Hræringarnar í gær sýna að þarna, eins og alls staðar á Íslandi, er landið enn í mótun. Hlýtt hefur verið á svæðinu undanfarið og mikil snjóbráð, svo jarðvegurinn hefur verið laus í sér. Mikill órói mældist á jarðskjálftamælum í um 20 mínútur eftir að skriðan féll, en ekki hefur orðið markverð aukning í jarðskjálftavirkni á svæðinu.