50 milljóna rúmmetra skriða

Skriðan olli líklega fjórum flóðbylgjum í vatninu. Mikið rof varð …
Skriðan olli líklega fjórum flóðbylgjum í vatninu. Mikið rof varð við þennan atburð og brúnirnar geta því verið stórhættulegar Ljósmynd/Gunnar Víðisson

Jarðvegurinn í skriðunni sem féll í Öskju jafnast á við heilt fjall. Skriðan sem féll seint að kvöldi mánudags við Öskjuvatn er um 1,2 km breið þar sem hún er breiðust og nær hún um einn kílómetra frá fjallseggjum og fram á vatnsbakkann.

Áætlað er að skriðan hafi alls verið að lágmarki um 50 milljónir rúmmetra og þar af hafi 24 milljónir rúmmetra af efni farið fram í Öskjuvatn. Er það sexfalt meira magn en fór í Kárahnjúkastíflu, ef samanburður e gerður við nýlegt mannvirki hér á landi. Erfitt er að finna sambærilega atburði. Ármann Höskuldsson jarðeðlisfræðingur, sem skoðaði ummerkin í gær, telur þó víst að fleiri berghlaup hafi orðið í Öskju frá því Öskjuvatn myndaðist í stórgosinu 1875.

Hann telur að efnisflutningarnir í skriðunni nú séu mun meiri en í einu þekktasta berghlaupi hér á landi, þegar skriða úr Vatnsdalsfjalli myndaði Vatnsdalshóla. Vísindamenn vita ekki fyrir víst um ástæður skriðunnar. Ármann hallast að því að hreyfing á hringsprungunum sem mynda Öskju hljóti að vera aðalástæðan, en jarðhiti hafi einnig gert bergið veikara. 

Almannavarnir hafa lokað svæðinu við Öskju enda geti verið hætta á ferðum. Hin vinsæla gönguleið að gígnum Víti er þó opin.

Vísindamenn frá Veðurstofunni og Háskóla Íslands sátu í gær fund með almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Vatnajökulsþjóðgarði. Í framhaldi af fundinum var ákveðið í samráði við lögreglustjórann á Húsavík og Vatnajökulsþjóðgarð að loka næsta nágrenni Öskjuvatns, það er við norðurbarm Vítis og annars staðar þar sem flóðsins gætti og hætta er talin vera á ferðum. Vænta má einhverrar niðurstöðu á morgun.

Ítarlega er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag. Sjá fyrri umfjöllun mbl.is:

„Bráðabani“ að fara niður að vatninu

Vígalegur mökkur steig til himins

Stór skriða féll í Öskjuvatn

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert