Umferð áfram takmörkuð við Öskju

Mynd/Ólafur Már Björnsson

Vísindamenn hafa í dag farið yfir frumniðurstöður rannsókna síðustu daga í kjölfar skriðunnar í Öskju á mánudaginn. Enn þykir ástæða til þess að hafa varann á og takmarka umferð innan öskjunnar eins og hefur verið gert undanfarna daga, fram í næstu viku.

Ekki sáust nein ummerki sem benda til þess að annað sambærilegt hrun sé yfirvofandi úr brúnum Dyngjufjalla við Öskjuvatn sem gæti orsakað aðra flóðbylgju. 
 
Hins vegar er í næsta nágrenni þar sem berghlaupið varð talin vera mikil hætta á frekari skriðuföllum og ætla vísindamenn að sú hætta vari mögulega í heilt ár eða lengur. Því vara Almannavarnir við mannaferðum á svæðinu. 

„Að viku liðinni er gert ráð fyrir að skriðuhætta í Öskju, utan framhlaupsins sjálfs frá 21. júlí, verði svipuð og áður var,“ segir í tilkynningu frá Almannavörnum. 

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, lögreglustjórinn á Húsavík og Vatnajökulsþjóðgarður hvetja þá sem verða á ferð við Öskju að virða þær lokanir og merkingar sem þar eru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka