Ekki hefur verið talin nein sérstök ástæða til að gefa út viðvaranir til þeirra Íslendinga sem hafa í hyggju að ferðast til Noregs. Gunnar Pálsson, sendiherra Íslands í Noregi, segir að mikilvægt sé að Íslendingar kynni sér vel það sem norsk stjórnvöld hafa sagt og það sem fram hefur komið í fjölmiðlum áður en þeir fara út.
„Ég held að allir ættu að vera mjög vel meðvitaðir um hver staðan sé, en það verður hver og einn að meta það sjálfur hvort hann vilji breyta sínum ferðaáætlunum,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Stjórnvöld í Noregi hafa sagt að hætta sé á hryðjuverkum í landinu á næstu dögum. Talið er að hópur öfgamanna sem hafi farið frá Sýrlandi með Noreg í huga sem skotmark hryðjuverka. Óttast er að þeir láti til skarar skríða á mánudaginn.
Norska sendiráðið hefur í gær og í fyrradag fengið nokkrar fyrirspurnir frá Íslendingum sem hyggjast ferðast til Noregs.
„Það átta sig kannski ekki margir á því að þetta er sumarleyfistími í Noregi og þá er Oslóarborg því sem næst tóm. Göturnar í miðbænum eru mikið til auðar. Það er ekki mikið um ferðamenn í Osló og þess vegna er erfitt að meta það hvað fólk er að hugsa. Þegar Norðmenn fara í sumarleyfi fara þeir flestir í frístundahús sem eru upp í fjöllum eða meðfram fjörðum,“ segir hann.
Hann segir það ósköp skiljanlegt af hverju norsk stjórnvöld hafi ákveðið að fara þá leið að gera viðvart um vísbendingar um hryðjuverkaógn. „Norsk stjórnvöld sættu talsverðri gagnrýni eftir hryðjuverkaárásirnar fyrir þremur árum og í skýrslu sem lögð var fram ári síðar voru stjórnvöld gagnrýnd upp að vissu marki fyrir að hafa ekki séð árásirnar fyrir og gert ráðstafnir til að koma í veg fyrir það sem gerðist.
Það er þá ljóst að stjórnvöld ætla ekki að láta taka sig í bólinu að þessu sinni, heldur hafa þau gert viðvart um þær vísbendingar sem þau telja sig hafa,“ segir Gunnar.
Hann bendir jafnframt á að viðvaranir sem þessar komi ekki að öllu leyti á óvart. Bæði öryggisþjónusta lögreglunnar og öryggisþjónusta norska hersins hafi áður talið ástæðu til þess að vekja athygli á þeirri hættu sem kynni að stafa af öfgafullum múslimum í Noregi.
Múslimar séu auðvitað ekki allir öfgasinnaðir, en vitað sé að ákveðin öfl í þessum hópi hafi tekið þátt í styrjaldaraðgerðum fyrir botni Miðjarðarhafs. „Ungir norskir múslimar hafa farið til Sýrlands og tekið þátt í bardögum þar. Þetta er ungt hugsjónafólk og kemur það síðan til baka til Noregs með allskyns hugmyndir í kollinum sem stjórnvöld hér kynna vilja hafa gætur á. Þannig kemur það til að norsk stjórnvöld hafa talið sérstaka ástæðu til að fylgjast með þessum hópi.“
Sjá fyrri fréttir mbl.is:
Óttast hryðjuverk á mánudaginn