Íslendingar leggja land undir fót

Ljósmynd/Ólafur Már Björnsson

„Það er búið að vera slatti af fólki hérna í dag og meira af Íslendingum eftir að skriðan féll. Við erum að segja þeim hvað má og hvað má ekki. Fólki finnst þetta augljóslega mjög spennandi,“ segir Heimir Gestur Valdimarsson, skálavörður í Dreka. 

Skálinn er staðsettur nálægt Öskju og eiga margir ferð hjá skálanum á leið sinni að gígnum þar sem skriðan féll í vikunni. 

Það er hægt að keyra héðan 8 kílómetra leið og ganga svo frá bílaplaninu 2,4 km. Svo er hægt að ganga þangað yfir Dyngjufjöllin. Venjulega er sú leið 9 km en sú leið er lokuð á efsta punkti og þá þarf maður að ganga tilbaka, því það er svo nálægt Suðurbotninum þar sem skriðan féll. Það hefur ekki verið spurt svona mikið út í þessa gönguleið áður, en hún er vinsæl núna því þar kemst þú sem næst skriðunni.“

Heimir segir að honum finnist sem hlutfall íslenskra ferðamanna hafi aukist eftir fréttirnar af skriðunni. Stefán Jökulsson yfirlandvörður í Öskju tekur í sama streng. 

„Hræðslan sem kom eftir skriðuna er aðeins að ganga til baka, það var töluvert af fólki þarna í dag,“ segir Jökull og bætir við: „Mér finnst eins og það séu fleiri Íslendingar en áður.“

Stefán segir að ferðamennirnir virði flestir lokanirnar. „Ég hef ekkert orðið var við að fólk fari á svæði sem eru lokuð vegna náttúruvár. Þær merkingar verða í viku í viðbót að minnsta kosti samkvæmt því sem kom fram á fundi almannavarna í gær.“

Veðrið á svæðinu hefur verið fínt í dag og aðstæður góðar. „Í dag höfum við fengið allar tegundir af veðri. Það hefur verið sól og blíða, svo hafa komið tveir rigningaskúrir en það er frekar hlýtt. Um 16 stiga hiti í hádeginu og mjög fínar aðstæður. 

mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka