Virða ferðabann við Öskju

Umferð við Öskjuvatn hefur verið bönnuð eftir að skriðan féll.
Umferð við Öskjuvatn hefur verið bönnuð eftir að skriðan féll. Ljósmynd/Ólafur Már Björnsson

Ferðamenn í nánd við Öskju, þar sem stór skriða féll seinasta mánudag, hafa virt þær takmarkanir og bönn sem eru í gildi á svæðinu, að sögn Stefáns Jökulssonar, yfirlandvarðar í Öskju.

Í samtali við mbl.is segir hann að mikill straumur ferðamanna hafi verið á þessum slóðum, þar á meðal um Drekagil, um helgina, þá sérstaklega í dag. Umferð hafi verið lítil skömmu eftir að fregnir bárust af skriðunni, en hún hafi aukist allverulega um helgina.

„Það hafa skipst á skin og skúrir hjá okkur. Við höfum fengið allar tegundir af veðri,“ segir Stefán. Bjart hafi verið þar í dag og tiltölulega hlýtt í veðri.

Ekki er lengur talin hætta á skriðuföllum með tilheyrandi flóðbylgju í Öskjuvatni. Almannavarnir vilja þó enn hafa varann á og verður því umferð ferðafólks við Öskju áfram takmörkuð. Fylgst verður með svæðinu áfram í samvinnu við landverði og staðan metin í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert