„Síðasta eitt og hálfa árið hefur verið minn erfiðasti tími. Ég meiddist í baki og hélt í fyrstu að ég myndi ekki geta gengið aftur. Eftir það hélt ég að ég myndi aldrei geta keppt aftur, en nú er ég hér,“ sagði tárvot Annie Mist Þórisdóttir í viðtali við fjölmiðlamenn eftir að hafa landað silfri í einstaklingsflokki kvenna á heimsleikunum í Crossfit um helgina.
Annie Mist þakkaði öllum sem sýndu henni stuðning kærlega fyrir og sagði það hafa skipt sköpum. „Fólk kepptist við að segja mér að ég gæti þetta, en ég átti mjög erfitt með að trúa því sjálf. Ég tók einn dag í einu og setti mér það markmið að komast hingað aftur. Ég er gríðarlega ánægð,“ sagði Annie.
Hún ítrekaði í lokin að allt væri hægt ef nægur viljastyrkur og sjálfstraust væri fyrir hendi.
Hin kanadíska Camille Leblanc-Bazinetm sigraði í kvennaflokki í ár, en Annie Mist hampaði þeim titli árin 2011 og 2012. Hún tók hins vegar ekki þátt í fyrra vegna meiðsla.
Frétt mbl.is: Annie Mist nældi í silfrið