Afgirt svæði á Öskjusvæðinu ættu ekki að breyta miklu fyrir ferðamenn. Þetta segir yfirlandvörður í samtali við mbl.is. Enn sé hægt að ganga þær leiðir sem voru fjölfarnastar fyrir skriðuna sem átti sér stað í síðustu viku. Svæðið er nú í skoðun og ef niðurstöður sýna að svæðið sé öruggt er mögulegt að afgirtu svæðin verði opnuð aftur í vikunni.
„Það var fundur fyrir þremur dögum með sérfræðingum og vísindamönnum. Þá var tekin ákvörðun um að merkingar fyrir vásvæði héldust óbreyttar í viku. Það er það svæði sem er afgirt,“ segir Stefán Jökulsson, yfirlandvörður í Öskju.
„Svæðið sem er afgirt er ekki það sem fólk fer venjulega um. Maður gengur inn að vatninu og Víti, sprengigígnum, nákvæmlega einsog áður nema það er ekki hægt að fara alveg að vatninu. Fæstir fóru þangað hvort eð er.“
„Svo voru ennþá merkingar við víti áður en skriðan fór af stað, því það var ennþá snjór í göngunni niður. Þessar lokanir ættu ekki að breyta það miklu fyrir ferðamenn,“ segir Stefán.
Í fyrstu hafi spurningin verið hvort líkur væri á meira berghlaupi. Ekki var talin sérstök ástæða til að gera ráð fyrir því, þótt ekki væri hægt að útiloka það.
„Hins vegar kemur þarna mikið vatn yfir hitasvæði og það getur haft miklar breytingar í för með sér. Jarðvegurinn gæti hafa þynnst og það getur haft nýjar hættur í för með sér,“ segir Stefán. „Það er verið að skoða þetta.“
Annar fundur verður haldinn á morgun um niðurstöður rannsóknanna. Hálendisfulltrúi fundar þar við jarðfræðinga og aðra sérfræðinga sem þekkja svæðið. Þjóðgarðsvörður ákveður í framhaldi af því hvaða svæði flokkast sem vásvæði.
„Ef það kemur í ljós að svæðið er öruggt er möguleiki á því að það verði opnað í vikunni.“