Lundaveiðitímabilið verður fimm dagar

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti í dag tillögu umhverfis- og skipulagsráðs um að lundaveiðitímabilið verði fimm daga langt. Deilt hefur verið um það hvort yfirhöfuð eigi að veiða lunda í ár, en Atli Sig­urðsson, for­stöðumaður Nátt­úrustofu Suður­lands sagði í sam­tali við Morg­un­blaðið í vik­unni sem leið að vart sé for­svar­an­legt að lundi verði veidd­ur nokk­urs staðar á land­inu í ár.

Gunnar Þór Guðbjörnsson lagði fram tillögu í ráðinu um að veiðarnar yrðu aðeins þrír dagar í stað fimm. „Það er borðleggjandi að stofninn stendur illa. Því verður að fara afar varlega í alla umræðu um veiðar. Fuglinn skiptir einfaldlega meira máli lifandi en dauður. Við hjálpum mest til með því að leyfa lundastofninum að njóta vafans og sýnt ábyrgð og hlíft honum eftir fremsta megni meðan staðan er svona,“ sagði í tillögu Gunnars. 

Meirihluti bæjarstjórnar ákvað að heimila veiðar í fimm daga, frá 7. til 12. ágúst að báðum dögum meðtöldum. Gunnar Þór og Páll Marvin Jónsson sátu hjá við afgreiðslu málsins.

Bæjarstjórinn segir að veiðarnar séu leyfðar til þess að viðhalda þessari hefð og menningu. „Veiðimenn þekkja best stöðuna á stofninum og við teljum að veiðarnar hafi ekki teljandi áhrif á stofnstærðina,“ segir Elliði.

„Við ætlum að leyfa veiðarnar í fimm daga, það gleymist oft að við erum að banna lundaveiðar í 40 daga,“ segir Elliði en hefðbundið lundaveiðitímabil var áður um 55 dagar. 

Veiði á lundastofninum var bönnuð með öllu árin 2011 og 2012 vegna bágs ástands stofnsins og í fyrra var heim­ilt að veiða í 5 daga, frá 19. til 23. júlí.

Sjá frétt mbl.is: Leggja til fimm daga lundaveiði

Sjá frétt Morgunblaðsins: Segir lundaveiðar vart forsvaranlegar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert